20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Saga FVSA í 90 ár
Þann 2. nóvember 2020 fagnar Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni (FVSA) 90 ára afmæli sínu. Af því tilefni er nú unnið að ritun sögu félagsins. Góðar myndir segja alltaf sína sögu og því leitar félagið nú að sem flestum slíkum til að nota í þetta merka rit.
Verkið langt komið
Forsaga málsins er sú að um mitt ár 2017 var skipuð nefnd sem var falið að skoða þann möguleika að skrifa sögu félagsins. Nefndina skipa þau Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, fyrrum formaður félagsins, Páll H. Jónsson, fyrrum formaður, Erla Hallsdóttir, fyrrum starfsmaður til fjölmargra ára og Kristín Þorgilsdóttir, skrifstofustjóri FVSA. Nefndin samdi á haustdögum 2017 við Jón Þ. Þór, sagnfræðing, um að annast verkið. Í árslok 2019 var svo Bragi V. Bergmann hjá FREMRI almannatengslum fenginn til að vera ritnefndinni og Jóni til halds og trausts á endasprettinum.
„Þetta hefur allt gengið ljómandi vel og nú förum við að sjá fyrir endann á verkinu,“ segir Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, formaður afmælisnefndarinnar. Hún segir að saga félagsins sé á margan hátt sérstök og í raun stórmerkileg. „Það er til dæmis ekkert sjálfgefið að félag í Eyjafirði haldi sjálfstæði sínu í alla þessa áratugi á sama tíma og nánast öll önnur verslunarmannafélög annars staðar á landinu hafa sameinast VR. Ég er afskaplega stolt af þeirri staðreynd,“ segir hún.
Okkur vantar myndir!
Sem fyrr segir er sögurituninni að mestu lokið en nú hugar nefndin að endanlegum frágangi verksins. „Og þá horfum við ekki síst til myndmálsins,“ segir Úlfhildur. Hún segir félagið sjálft eiga mikið af myndum og sömu sögu sé að segja af Minjasafninu á Akureyri, sem varðveiti myndir allra helstu ljósmyndara bæjarins að fornu og nýju.
„Okkur langar samt að leita til Eyfirðinga nær og fjær og vita hvort þeir eigi mynd eða myndir í fórum sínum, sem gætu átt heima í ritinu okkar,“ segir Úlfhildur. Meðal mynda sem gætu hentað eru myndir úr verslunum fyrri ára og öðrum fyrirtækjum þar sem félagsmenn FVSA starfa eða störfuðu. Ennfremur götumyndir eða myndir af einstökum verslunum og fyrirtækjum, myndir frá merkum stundum í sögu félagsins, myndir frá verkfallsátökum fyrri ára – og þannig þannig mætti lengi telja.
Úlfhildur hvetur þá sem telja sig eiga myndir sem gætu komið að gagni til að senda félaginu tölvupóst á netfangið fvsa@fvsa.is eða hringja í síma 455 1050.