20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Meirihluti bæjarráðs Akureyrar um húsnæði á Hlíð Ófært að loka tugum hjúkrunarrýma þegar bið er eftir plássum
Meirihluti bæjarráðs telur nauðsynlegt að klára eins fljótt og auðið er allar endurbætur og viðgerðir á húsnæði við Hjúkrunarheimilið Hlíð, ófært sé að loka tugum hjúkrunarrýma þegar talsverð bið er eftir plássum þar.
Umræða var um stöðuna í húsnæðismálum hjúkrunarheimilisins á fundi bæjarráðs, en fram hefur komið að vegna endurbóta á húsnæði þurfti að loka rýmum og stefnir í að fleiri rými bætist þar við þannig að þau verði í allt um 30 talsins.
„Meirihlutinn leggur á það höfuðáherslu að þessar framkvæmdir verði unnar hratt og örugglega. Okkur er það mikið kappsmál að allir búi við sem bestan aðbúnað og öryggi. En samkvæmt lögum er rekstur hjúkrunarheimila í landinu alfarið á ábyrgð ríkisins,“ segir í bókun meirihluta bæjarráðs.
Fulltrúar B-S- og V- lista bókuðu á fundinum að mörg atriði gefi til kynna að hið opinbera, ríki og sveitarfélög séu að valda töfum á mikilvægu máli „í karpi um krónur og aura, þó vissulega sé ekki um litlar upphæðir að ræða,“ eins og það er orðað í bókun. „Hér bitnar það mest á þeim sem síst skyldi, í þessu tilfelli öldruðum og hrumum einstaklingum sem eru í brýnni þörf fyrir pláss á hjúkrunarheimili sem og aðstandendum þeirra.“