Löngu tímabært að taka þetta samtal

Skjálfandaflói er Huld Hafliðadóttur afar kær.
Skjálfandaflói er Huld Hafliðadóttur afar kær.

Samtök um verndun í og við Skjálfanda (SVÍVS) standa fyrir málþingi og samtali um framtíð Skjálfanda, verndun og nýtingu. Málþingið fer fram í fundarsal Fosshótels Húsavík í dag, fimmtudag klukkan 10:00-14:00.

Sérstakur gestur málþingsins er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands en hann mun flytja ávarp.

Huld Hafliðadóttir kom að stofnun samtakanna árið 2021 en hún sagði skipulagningu málþingsins vera á loka metrunum þegar blaðamaður náði tali af henni í byrjun vikunnar. „Þetta er fyrsta málþingið okkar en við stofnuðum Samtök um verndun í og við Skjálfanda árið 2021,“ en það voru aðilar frá Hvalasafninu á Húsavík, Ocean Missions, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík og STEM Húsavík sem komu að stofnuninni. Sameiginlegur áhugi á verndun og skipulagi Skjálfandaflóa var hvatinn að stofnun samtakanna.

Á von á fjölbreyttum umræðum

Huld segir að markmiðið með málþinginu sé að ná fram löngu tímabæru samtali og hlusta á ólíkar raddir sem láta sig nýtingu og vernd Skjálfandaflóa varða. „Markmiðið með málþinginu er að fá ólíka aðila að borðinu til að eiga samtal um hvað við viljum og hvert við viljum stefna með Skjálfanda. Sérstaklega í ljósi þess að núna eru alþjóðlegir samningar í gildi sem Ísland er aðili að,“ segir Huld og nefnir alþjóðleg markmið um líffræðilegan fjölbreytileika sem snúi að því að 30% haf og landssvæða verði undir einhverskonar vernd fyrir árið 2030.  „Á Íslandi eru undir 2% af hafsvæðum vernduð, svo við eigum enn langt í land.“

 Viðkvæmt umræðuefni

Skjæalfandi

Þá segir Huld að það sér stundum eins og að ganga á eggjaskurn að tala um og vinna að náttúruvernd í dag, málefnið sé einhverra hluta vegna viðkvæmt umræðuefni. „Um leið og Íslendingar heyra orðið vernd, þá hrökkva þeir margir hverjir í einhvers konar vörn,“ útskýrir Huld og bætir við að mikilvægt sé að átta sig á því að þó talað sé um vernd, þurfi það ekki að þýða algjöra friðun. 

„Þetta samtal snýst um verndun fyrir komandi kynslóðir, að við nýtum auðlindir okkar á sjálfbæran hátt og göngum um þær af virðingu. Við erum bara að hugsa til framtíðar og ætlum okkur að eiga samtal sem að mínu mati hefur ekki átt sér stað. Við höfum verið svolítið föst í þessum hjólförum að það megi ekkert gera ef það séu settar einhverjar reglur.

 Hefur skoðanir og stendur við þær

Skjálfandaflói er Huld afar dýrmætur enda hefur hún um margra ára skeið haft beint eða óbeint lifibrauð af þessum fallega flóa sem Kinnarfjöllin vaka yfir. Bæði við leiðsögn í hvalaskoðun og um margra ára skeið starfaði hún sem verkefnastjóri á Hvalasafninu á Húsavík. Skjálfandi stendur því hjarta hennar afar nær og hún leyfir sér að hafa skoðanir á því hvernig gengið er um hann.

„Ég var t.d. lengi í hvalaskoðun og það sem ég var mikið að benda á þar; er að nánast alls staðar í heiminum þar sem stunduð er hvalaskoðun af þessari stærðargráðu og gæðum og raun ber vitni hér í Skjálfandaflóa; þá er alls staðar eitthvað regluverk nema á Íslandi. Við erum bara langt á eftir þegar kemur að náttúruvernd,“ útskýrir Huld og bætir við að það sé þá kannski ekki skrítið að það séu oft útlendingar sem hafi frumkvæði að náttúruvernd á Íslandi.

 Útlendingar oft með frumkvæðið

„Ég hef tekið eftir því hvað það er hátt hlutfall útlendinga og erlendra íbúa sem eru leiðandi í náttúruvernd hér á landi. Það er eins og við getum ekki tekið þetta frumkvæði sjálf. T.d. þeir sem hafa verið í strandhreinsunum hér á landi eru upp til hópa erlendir íbúar. Við Íslendingar erum svo mikil nýtingarþjóð, það er bara í genunum okkar frá fornu fari að við þurftum að nýta allt sem við komumst yfir. Í dag hefur þessi nýting til sjálfbjargar allt of oft snúist upp í sóun og ofnýtingu,“ segir Huld með áhersluþunga.

Málþingið fer sem fyrr segir fram á Fosshótel Húsavík í dag klukkan 10-14. „Ég hlakka til að hlusta á reynda aðila frá ólíkum sviðum eiga samtal um þessi mikilvægu mál og á von á mjög fjölbreyttri nálgun,“ segir Huld að lokum.

Nýjast