6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Læknir sem ákærður er fyrir heimilisofbeldi er hættur hjá HSN
Tómas Halldór Padjek, læknirinn sem greint var frá í gær að hafi verið ákærður fyrir ofbeldi gegn konu sinni og börnum hefur lokið störfum hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) á Húsavík. Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN staðfesti þetta í samtali við Vikublaðið. Jón Helgi vildi ekki tjá sig um það hvort honum hafi verið sagt upp störfum eða læknirinn sagt starfi sínu lausu sjálfur. „Við vissum ekki af þessu ásökunum þegar maðurinn var ráðinn,“ sagði Jón Helgi.
Sjá einnig: Læknir sem ákærður er fyrir hrottalegt heimilsofbeldi, starfar á Húsavík
Ákæra á hendur Tómasi var gefin út af lögreglustjóranum á Vestfjörðum þar sem honum er gefið að sök að hafa yfir sjö ára tímabil beitt eiginkonu sína ofbeldi og hótunum.
Í ákærunni segir og RÚV greinir frá, að hann hafi hótað konunni að binda enda á líf hennar með lyfjagjöf og skoða sjúkraskrár hennar. Aðalmeðferð málsins verður við héraðsdóm Vestfjarða síðar í þessum mánuði.
„Maðurinn er ákærður fyrir hegningarlagabrot og brot gegn barnaverndarlögum. Í ákærunni, sem fréttastofa RÚV hefur undir höndum, segir að ofbeldið hafi staðið yfir um áralangt skeið. Það hafi hafist þegar konan var barnshafandi og samkvæmt ákærunni réðst maðurinn þá á konuna og hótaði henni lífláti ef hún færi af heimilinu.
Hann er ákærður fyrir að hafa neitað henni um aðstoð þegar hún var fótbrotin og að hafa nokkrum sinnum hótað að drepa hana með því að gefa henni of mikið insúlín með fjarstýringu sem stýrir inngjöf, en hún er sykursjúk og að hafa læst hana inni þegar hún var lág í sykri þannig að hún óttaðist um líf sitt,“ segir í frétt RÚV.