Hollywood í Hofi
Húsfyllir tónleikagesta beið með eftirvæntingu eftir tónleikum Atla Örvarssonar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Menningarhúsinu Hofi síðastliðinn sunnudag. Atli Örvarsson og Draumsmiðjan var vel valin yfirskrift tónleikanna, þar sem Atli hefur starfað sem tónskáld í Hollywood í rúman áratug og samið tónlist fyrir fjölmargar þekktar kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Hversu vel lesendur þekkja tónlist Atla úr kvikmyndum þori ég ekki að fullyrða, en margir hafa án efa heyrt tónverk úr einhverjum af þeim fjölmörgu stórmyndum sem hann hefur samið fyrir. Í hverri viku hljómar einnig tónlist eftir Atla úr sjónvarpstækjum landsmanna, þegar RÚV sýnir þætti um slökkviliðs- og lögreglumenn Chicago borgar. Auk þessara verkefna hefur Atli samið tónlist fyrir íslenska sjónvarpsþætti og kvikmyndir og voru tvö slík verk á efnisskrá tónleikanna í Hofi.
Kvikmyndatónlist án myndar
Kvikmyndatónlist er form tónlistar sem er að því ólíkt „sjálfstæðum“ tónsmíðum að hvert tónverk eða stef er sérstaklega samið með ákveðna kvikmynd í huga. Tónskaldið þarf að geta unnið með leikstjóra hverrar myndar sem hann semur fyrir og vera tilbúinn til að setja sig inn í hugarheim hans og myndarinnar. Kvikmyndatónlist sem virkar vel er því samofin þeirri kvikmynd sem hún er samin fyrir. Og rétt eins og kvikmyndin er ekki söm án tónlistarinnar, er tónlistin ekki söm án myndarinnar. Það er því ekki alltaf sem tónlist samin fyrir ákveðið myndmál er fær um að standa sjálfstætt. Allar efasemdir um að tónlist Atla Örvarsson gæti staðið ein, hurfu hins vegar út í veður og vind, þegar í upphafi tónleikanna í Hofi síðastliðinn sunnudag.
Lýsandi frásögn og stemningar
Tónleikarnir hófust með flutningi á verki samið fyrir kvikmyndinni The Perfect Guy frá árinu 2015. Það var engin tilviljun að þetta verk varð fyrir valinu sem upphafsverk. Það var tekið upp í Hofi með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem flutti öll verkin á þessum tónleikunum fyrir utan eitt. Opnunarverkið hafði því það hlutverk að undirstrika hlutverk tónleikasalar Hofs sem upptökuvers fyrir kvikmyndatónlist. Um leið gaf verkið tóninn fyrir framhaldið. Hugljúft stef flutt af strengjum, píanói og hörpu skapaði afslappað andrúmsloft en tónleikagestum var einnig ljóst hve gríðarlega sterk tök Atli Örvarsson hefur á forminu. Tónlistin var kunnugleg í þeim skilningi að hún kveikti ákveðin hughrif sem auðvelt var að tengja við kvikmyndir en um leið einstaklega fallegt tónverik. Hún lýsandi án þess að fela í sér skýra frásögn á sama hátt og elsta verkið á efnisskránni. Hér er átt við svítu byggða á tónlist fyrir þriðju teiknimyndina um Stúart litla. Þetta er tónverkið sem kom Atla Örvarssyni á kortið sem sjálfstæðu tónskáldi í Hollywood fyrir rúmum áratug og skyldi engan undra. Með flutningnum var varpað á tjald myndbrotum úr kvikmyndinni, mögulega til upprifjunar og skemmtunar, en tónlistin sjálf fylgdi hins vegar frásögn myndarinnar svo vel eftir að það var leikur einn að ímynda sér hremmingar músarinnar út frá tónlistinni eingöngu. Þessi beina frásögn í tónlistinni var að mestu horfin úr svítunni Colette sem samin var fyrir samnefnda kvikmynd og flutt rétt á undan. Hún dró engu að síður upp einstaklega myndrænar stemningar sem sköpuðu nægilega skýr hughrif til að hægt væri að geta sér til um dramatíska framvindu kvikmyndarinnar án þess að myndbrot fylgdu flutningnum.
Á heimaslóð
Á miðju efnisskrárinnar fyrir hlé frumfluti hljómsveitin tónverkið Lament for the woods, tregafullt og drungalegt verk sem jafnframt var mest abstrakt verkið á tónleikunum. Næsta verk á efniskránni, tónlist við kvikmynda Fyrir framan annað fólk, var laustengt frásögn myndarinnar, en einkenndist af sama ljúfsára léttleikanum og hún. Dagskrá fyrri hluta tónleikanna endaði síðan með flutningi hljómsveitar, kórs og einsöngvara á dramatískri tónlist við kvikmyndina Norðaveiðar Hans og Grétu. Persónulega fannst mér stiklan fyrir kvikmyndina sem varpað var á tjald, ekki endilega hjálpa flutningnum, en hún gaf þó innsýn í viðburðaríka atburðarás og mikla dramatík sem skilaði sér vel í tónlistinni. Þetta var viðeigandi hápunktur á fyrri hluta tónleikanna sem hófust aftur á stuttri kynningu tónskáldsins á persónulegum tengslum hans við Bárðardal, sem er sögusvið kvikmyndarinnar Hrútar. Við tók lágstemmdur flutningur á meginstefinu á kvikmyndarinnar, þar sem Atli lék sjálfur á harminokku. Kynningin átti sinn þátt í að undirstrika persónulega nánd, sem tjáð var með tónlistinni og gerði flutninginn af tilfinningalegum hápunkti tónleikanna.
Fjölhæfni
Á eftir Hrútum steig sinfóníuhljómsveitin aftur á svið og flutti fjörmikla Arnarsvítu úr samnefndir kvikmynd, The Eagles. Í þessu verki sýndi Atli á sér nýja hlið, með fjörlegri tónlist sem skírskotaði til írskra þjóðlagatónlistar og féll auðheyrilega í kramið hjá tónleikagestum. Þaðan var horfið á vit arabískra áhrifa með tónlist fyrir teiknimyndina Bilal frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Á milli þessara tveggja verka, fluttu hljómsveit og kór hádramatíska tónlist úr stórmyndinni Babylon. Tónleikunum lauk með annarri dramatískri svítu úr ævintýraspennumyndinni The Mortal Instruments, um margt dæmigerð tónlist fyrir þessa tegund kvikmynda, þar sem fjölhæfni tónskáldsins Atla fékk að njóta sýn. Þegar hér var komið sögu voru tónleikagestir fyrir löngu orðnir sannfærðir um hæfileika Atla Örvarssonar sem tónskálds og getu verkanna til að halda uppi heilum tónleikum án kvikmynda. Efnisskráin var nægilega fjölbreytileg til að halda áheyrendum vel vakandi, ásamt óaðfinnanlegum flutningi hljómsveitar, einleikara og söngvara undir stjórn Atla sjálfs.
-Margrét Elísabet Ólafsdóttir