Akureyringur skrifar fyrsta íslenska vestrann

Kári Valtýsson.
Kári Valtýsson.

Kári Valtýsson hefur sent frá sér sína fyrstu bók sem nefnist Hefnd. Bókin er fyrsta sinnar tegundar hér á landi en um vestra er að ræða og er hún gefin út af Sögum útgáfu. 

Í stuttu máli fjallar bókin um Gunnar Kjartanson, ungan lögregluþjón í Reykjavík árið 1866, sem kemst í hann krappann og þarf að flytja af landi brott. Hann endar í erfiðsvinnu við lagningu brautarteina í Bandaríkjunum og kemst þar í kynni við harða menn sem kenna honum réttu handtökin þegar kemur að vopnaskaki. Fyrr en varir er hann orðinn byssubrandur á sléttunum.

Óhætt er að segja Kári feti ótroðnar slóðir í sinni fyrstu skáldsögu en vestrar hafa ekki verið þekkt sagnarform hér á landi. „Ég fór að velta fyrir mér hvernig ástandið hefði verið á Íslandi þegar fólksflutningarnir miklu hófust og margir fluttu til Kanada. Þá kviknaði hugmyndin að bókinni. Ártalið 1866 var sífellt að koma upp í heimildarleitinni. 

Svo fór ég að velta fyrir mér ástandinu í Bandaríkjunum á þessum tíma og hvort það væri möguleiki að koma Íslendingi í þær aðstæður með sagnfræðilega réttum hætti. Ég komst að því að var hægt þannig að sagan í bókinni hefði alveg geta átt sér stað í raunveruleikanum,“ segir Kári. 

Nánar er rætt við Kára um bókina í prentútgáfu Vikudags.

Nýjast