20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Fyrsta utanlandsferðin
Nú um helgina hitti ég æskuvin sem ég hafði ekki séð lengi. Við rifjuðum upp gamla tíma, meðan annars þegar við fórum til sumardvalar í Noregi, rétt rúmlega fermdir. Það var fyrsta utanlandsferð okkar beggja. Sennilega hafa foreldrar okkar þorað að senda okkur í hana eina vegna þess að við dvöldum þar úti á vegum kristilegra samtaka, við jarðarberjatínslu í Valldal í vesturhluta landsins.
Fyrstu nóttina okkar á erlendri grund gistum við á sumarhóteli í biblíuskóla samtakanna í Osló. Við tókum leigubíl frá flugvellinum, heimóttarlegir og bólugrafnir. Á hótelinu var okkur vísað til gistingar í skólastofu. Dýnur á gólfinu urðu okkar fyrsti náttstaður utan heimalandsins.
Þegar við höfðum skriðið í pokana, uppspenntir eftir ferðalagið, gekk báðum illa að sofna. Auk þess hafði óhóflegt sælgætisát og sleitulaust gosdrykkjaþamb leitt til töluverðrar uppþembu innvortis.
Sáum við ekkert annað í stöðunni en að nýta það ástand og efndum til viðrekstrarkeppni.
Sú viðureign reyndist æsispennandi og dróst á langinn. Ekki veit ég hvort hún hefur raskað svefnró annarra gesta á Fjellhaug sumarhótelinu þótt rúður hafi glamrað í gluggum og hurðir í fölsum þegar við hleyptum út mestu spennunni.
Síðla nætur sofnuðu tveir íslenskir unglingspiltar vært eftir að hafa fagnað sinni fyrstu utanför með flugeldasýningu.
Svavar Jónsson