20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Fataverslun Rauðakrossins opnar á Húsavík
Á morgun þriðjudag opnar Rauðikrossinn í Þingeyjarsýslum fatabúð að Garðarsbraut 44 þar sem einnig er til húsa félagsaðstaða Félags eldri borgara á Húsavík og nágrenni. Blaðamaður leit við í versluninni í morgun og tók Halldór Valdimarsson formann Rauðakrossins í Þingeyjarsýslum tali.
Sjá einnig: Bjart er yfir Betlehem
Halldór segir að fatasöfnun hafi gengið vel en deildin hefur verið með fatasöfnun í mörg ár inni í Húsasmiðjunni og fyrir skemmstu hafi verið settir fatasöfnunargámar á stéttina fyrir utan verslunina. „Nú erum við komin með gáma á Þórshöfn, Raufarhöfn, Kópaskeri, á Laugum í Reykjadal og þrjá gáma hér á Húsavík,“ segir Halldór sem var í óða önn við að lakka hillur þegar blaðamaður leit við.
"Við erum búin að taka þetta fína húsnæði á leigu hjá Félagi eldri borgara og ætlum að fara selja notuð föt og ýmsar smávörur. Ég held að svona verslun sé alveg nauðsynleg og þetta fer að sjálfsögðu allt til góðgerðarmála eins og allt hjá Rauða krossinum."
Halldór segir að til að byrja með verði opið á þriðjudögum og fimmtudögum frá klukkan 16:00 – 18:00. „Við erum að safna sjálfboðaliðum til að vinna í versluninni og ætlum að byrja á því að hafa opið tvisvar í viku. Svo eftir því sem líður á vorið þá aukum við þetta og fáum fleiri sjálfboðaliða til að hjálpa okkur,“ segir Halldór og bætir við að reynslan sé sú að það sé mikið til eldra fólk sem fæst til sjálfboðaliðastarfa. „Við eldra fólkið höfum meiri tíma segir Halldór og hlær. Hann er vongóður um að fá aðstoð frá eldri borgurum sem eru að opna félagsaðstöðu í sama húsnæði.
Halldór vill koma því á framfæri að Rauði krossinn geti alltaf þegið hjálp frá fleiri sjálboðaliðum, þeir sem séu áhugasamir geti haft samband við sig.