BSO fær lengri frest til að yfirgefa Strandgötuna

BSO fær að vera aðeins lengur við Strandgötu.
BSO fær að vera aðeins lengur við Strandgötu.

Bæjarráð Akureyrar hefur veitt BSO lengri frest til að fara að svæðinu, en stjórnendur BSO óskuðu í byrjun desember eftir framlengingu á stöðuleyfi leigubílastöðvar við Strandgötu.

Þrír stjórnarmenn í BSO þeir, Smári Ólafsson, Gylfi Ásmundsson og Sveinbjörn Egilson sátu fund bæjarráðs  í morgun þar sem fjallað var um ósk þeirra.

Fram kemur í bókun bæjarráðs að meirihluti skipulagsráðs hafi samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að hefja undirbúning að auglýsingu lóða við Hofsbót 1 og 3. Í kjölfarið hófst samráð við m.a. Vegagerðina sem varð til þess að gerð var minniháttar breyting á lóðum við Hofsbót og Skipagötu sem liggja samsíða Glerárgötu.

Á fundi skipulagsráðs 13. desember 2023 fól skipulagsráð skipulagsfulltrúa að undirbúa gerð útboðsskilmála og kynna áformin jafnframt fyrir umhverfis- og mannvirkjasviði og Norðurorku. Það er því ljóst að lóðir við Hofsbót 1 og 3 verða auglýstar á næsta ári. Bæjarráð samþykkir að veita BSO lengri frest að fara af svæðinu. Ef tilboð berst í Hofsbót 1 sem bæjarráð samþykkir þarf BSO að fara með starfsemi sína og húsakost með sex mánaða fyrirvara.

 

Nýjast