20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Bílaumferð takmörkuð í Miðbænum frá og með 1. júní
Lokanir fyrir bílaumferð í Hafnarstræti á Akureyri eða Göngugötunni taka gildi á morgun, fimmtudaginn 1. júní. Fyrr í vetur samþykkti bæjarstjórn Akureyrar endurskoðaða tillögu skipulagsráðs bæjarins um verklagsreglur varðandi lokanir gatna í miðbænum á sumrin fyrir bílaumferð. Lokun Göngugötunnar verður með þeim hætti að í júní og ágúst verður að lágmarki lokað fimmtudaga, föstudaga og laugardaga frá kl. 11-17 og í júlí verður lokað alla daga frá kl. 11-17.
Þá segir í verklagsreglum að ef hiti er undir 5°C á sjálfvirkum mæli veðurstofunnar við Krossanesbraut kl. 11 að morgni lokunardags, er sviðstjóra skipulagssviðs heimilt að hafa götuna opna fyrir bílaumferð þann dag. Tilgangur og almennar forsendur fyrir lokun gatna er að takmörkun á umferð vélknúinna ökutækja eykur öryggi gangandi vegfarenda, á þátt í því að efla bæjarbrag og virkar hvetjandi fyrir íbúa og gesti til að ganga og njóta útiveru. „Með því að takmarka umferð vélknúinna ökutækja er opnað fyrir gangandi umferð og möguleika til að nýta miðbæjarsvæðið m.a. fyrir uppákomur sem trekkir að fólk og eykur viðskipti í bænum. Samþykkt þessari er ætlað að tryggja að vel sé að þessum málaflokk staðið og að lokanir gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja séu í sátt við íbúa, rekstrar- og hagsmunaaðila,“ segir í verklagsreglum.
Loka má Gilinu vegna listviðburða
Lokun í Listagilinu verður með þeim hætti að heimilt verður að loka vegna listviðburða frá kl. 14-17 frá maí til september. Verður að hámarki gefið leyfi fyrir fjórar lokanir á þessu tímabili. Lokunarskilti skulu vera við neðra horn Kaupvangsstrætis 19 og við efra horn Kaupvangsstrætis 23. Þá eru víðtækar heimildir fyrir lokanir í miðbæ Akureyrar á 17. júní, um verslunarmannahelgi og á bæjarhátíð sbr. Akureyrarvöku.