Meira til varnar kisunum

Ólafur Kjartansson.
Ólafur Kjartansson.

Fyrr í sumar birtist svar við grein minni um lausagöngu katta á Akureyri sem höfundur svarsins tileinkaði til varnar kisunum. Mér fannst áherslan þar vera minni á kisunum sjálfum en meir til varnar þeim kattaeigendum sem velja það að hafa ekki taumhald á þessum gæludýrum sínum. Þess vegna tók ég til nokkur atriði hérna sem vonandi hjálpa til við að verja kisurnar gegn ósanngjarnri umfjöllun:

Ég held að það sé fyrir marga fátt til sem er eins róandi og að hafa malandi kisu við hliðina á sér. Nálægðin við ánægða og spaka kisu í hvíld er endurnærandi fyrir sálina hjá kisuvinunum og uppátækin hjá dýrunum geta líka verið alveg kostuleg.

Mér finnst það sjálfsagt og eðlilegt að fólk sem hefur aðstöðu og heilsu til að búa með kött fái að gera það ef það skemmir ekki fyrir öðrum. Það er þónokkur skuldbinding fylgjandi því að taka að sér kisu, þetta eru lifandi verur sem þurfa sitt atlæti og umsjón og fólk verður að gera sé grein fyrir því að kettir sem alast sem gæludýr geta hæglega orðið meir en 15 ára gamlir.

 Því miður eru þau mörg til sem eru með líkamlegt ofnæmi fyrir próteinum sem kettir mynda. Þess vegna verður það fólk að vera laust við nálægð katta. Í erfiðustu tilfellum getur það verið þannig að barn með slíkt ofnæmi getur ekki haft náin samskipti við eða sem sessunaut einhvern frá kattaheimili. 

Kettir sem ganga lausir geta komist í snertingu við ýmislegt sem ólíklegt er að fólk vilji hafa í húsum inni. Kona sem ég þekki lýsti því þegar hún fór til heimilislæknis vegna útbrota á fótum og fyrsta spurningin sem læknirinn spurði hana við skoðunina var um það hvort það væri köttur á heimilinu. Það var reyndar ekki en það er greinilegt á þessu að læknirinn gerði ráð fyrir að kettir eru ekki frekar en önnur dýr laus við að fá á sig ýmsa óværu í útileiðöngrum. Það eru líka fæstir sem eru hrifnir af því að það séu borin inn í hýbýli fólks hræ af fuglum og nagdýrum sem veiðiklærnar hafa gripið á leið sinni.

Íslenskt fuglalíf er viðkvæmt fyrir því álagi sem fylgir lausagöngu katta. Vistfræðilega séð er kötturinn framandi rándýr í náttúrunni hér og þegar veiðar kattanna bætast ofan á það sem innlendu rándýrin taka s.s hrafn og mávur kemst lítið sem ekkert á legg af þeim fuglategundum sem annars ættu að eiga möguleika að þrífast þokkalega í nágrenni við mannfólkið.

 

Þessi áhrif á náttúruna, óþrifnaðurinn og ónæðið sem fylgir útigöngunni hafa valdið því að kettir eru orðnir mjög óvinsælir hjá mörgum þeirra sem er annt um náttúru og umhverfi. Mér finnst það miður vegna þess að ég tel ekki vera við kisurnar að sakast, heldur fólkið sem í hugsunarleysi sínu finnst það sjálfsagt mál að láta kettina fara um allt eins og þeim dettur í hug. Satt að segja finnst mér það óskaplega órómantísk tilhugsun að sjá fyrir sér að kisan sem kúrir uppí sófanum hjá handavinnu húsmóðurinnar er að hvíla sig eftir að hafa stútað síðasta þrastarunganum á nágrannalóðinni eða annað álíka afrek.

Besta lausnin fyrir kisurnar er að mínu mati að kattaeigendur sýni þá ábyrgð að hafa kisurnar hjá sér og hlífi umhverfinu við þeim neikvæðu áhrifum sem lausagangan veldur. Enda er það svo að ég tel það stangast á við jafnræðisreglu stjórnsýslu að aðeins ein gæludýrategund megi ganga laus meðan eigendum allra annara gæludýra er gert að hafa taumhald á sínum dýrum. Katthotsfólkið þekkir mörg góð ráð sem það getur veitt þeim kisuvinum sem eru óörugg með það hvernig er best að haga sér í þessu.

-Ólafur Kjartansson. Höfundur er varamaður áheyrnarfulltrúa VG í umhvefis- og framkvæmdaráði Akureyrarbæjar.

 

Nýjast