Brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla

Dagbjört Pálsdóttir
Dagbjört Pálsdóttir

Að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á Íslandi þarf að vera forgangsmál og er nauðsynlegt að það sé samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Markmið Akureyrarbæjar hefur verið að tryggja öllum börnum leikskólavist við 18 mánaða aldur. Innan fárra ára er nauðsynlegt að miða við 12 mánaða aldur og að ríkið lengi fæðingarorlofið í 12 mánuði á móti. 

Á núverandi kjörtímabili kom þó upp sú staða að börn komust ekki inn á leikskóla 18 mánaða.  Ástæðan var að mun fleiri fluttu til bæjarins en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er auðvitað gleðilegt í sjálfu sér að ungum Akureyringum hafi fjölgað, en því fylgdu vaxtarverkir. Þess vegna var tímabundið ekki hægt að tryggja öllum 18 mánaða börnum leikskólapláss, sem að sjálfsögðu er ómöguleg staða fyrir foreldra.

Viðbrögð Akureyrarbæjar voru að ráðast í margvíslegar aðgerðir:

  • Börnum var fjölgað á deildum þar sem það var hægt
  • Stofnuð var 5 ára deild við Glerárskóla
  • Leitast var við að fjölga dagforeldrum
  • Samstarf við nágrannasveitarfélög um tímabundin leikskólapláss
  • Kannaðir möguleikar á opnun fleiri 5 ára deilda

Með þessum ráðstöfunum tókst að tryggja flestum börnum leikskólavist við 18 mánaða aldur, en vandinn leysist þó ekki að fullu fyrr en nú í sumar. Í ár fer stór árgangur upp í grunnskóla og þá verða aftur næg leikskólapláss fyrir öll 18 mánaða börn. Lausn málsins er þó ekki síst metnaðarfullu og faglegu starfi starfsfólks leikskóla og starfsfólks fræðslusviðs Akureyrarbæjar að þakka.

##Stuðningur við barnafjölskyldur

Í þessu samhengi hefur lokun leikskólans Hlíðarbóls árið 2016 verið gagnrýnd. Sá leikskóli var lítill og hvert pláss þar var dýrara en í þeim leikskólum sem bærinn rekur sjálfur. Á þeim tíma var ekki þörf fyrir Hlíðaból. Sú niðurstaða miðaðist við bestu áætlanir og um eðlilega fjölgun í bænum, þannig að næg leikskólapláss væru í öðrum leikskólum bæjarins.

Eins og áður segir þá þarf til framtíðar að bjóða öllum börnum leikskólapláss frá 12 mánaða aldri. Að þeirri breytingu þarf að vinna markvissa og faglega áætlun, enda nauðsynlegt að hafa fleira í huga en einfaldlega að byggja fleiri leikskóla. Nauðsynlegt er til að mynda að tryggja áfram nægilega marga menntaða leikskólakennara til starfa, fækka aftur á deildum þar sem fjölgað var, auk þess að bjóða upp á aðstöðu sem hentar yngri börnum. 

Samfylkingin leggur áherslu á félagslegt réttlæti og öflugan stuðning við barnafjölskyldur og þarf að fá gott brautargengi í kosningunum í vor til að leikskólamál verði áfram í forgangi.  Látum hjartað ráða för.

-Dagbjört Pálsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður fræðsluráðs Akureyrarbæjar, skipar 2.sæti Samfylkingarinnar á Akureyri.

 

Nýjast