Nýta jarðvarma til framleiðslu á ofurfæðu úr smáþörungum

Á myndinni eru: Júlía K. Björke, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Halldór Jóhannsson og Dagbjört Hafli…
Á myndinni eru: Júlía K. Björke, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Halldór Jóhannsson og Dagbjört Hafliðadóttir, Hrönn Greipsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Örn Viðar Skúlason.

Framsækið nýsköpunarfyrirtæki í Mývatnssveit, Mýsköpun ætlar sér stóra hluti á fæðubótarefnamarkaðnum en fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á örþörungum sem lýst hefur verið sem ofurfæðu. Fyrirtækið er til húsa í húsnæði Landsvirkjunar við Bjarnarflag en Landsvirkjun hefur á undanförnum árum stutt við bakið á Mýsköpun á ýmsan hátt. 

Mýsköpun ehf. var stofnað 2013 og var yfirlýst markmið félagsins að einangra, greina og ákvarða ræktunarskilyrði örþörunga úr Mývatni með framleiðslu og sölu í huga. Prófessor Hjörleifur Einarsson hefur verið hugmyndasmiður verkefnisins frá upphafi og stjórnað þróunarvinnu með 1-3 starfsmönnum, auk nemenda. Árið 2018 tókst að finna og einangra tvo örþörunga til manneldis úr sýnum sem tekin voru í Mývatni, annars vegar Spirulina (Arthospira plantensis) og Chlorella (Chlorella vulgaris).

 Fundu smáþörunga sem lifa við miðbaug

Mýsköpoun

Dagbjört Inga Hafliðadóttir, framkvæmdastjóri félagsins segir að fyrstu árin í sögu Mýsköpunar hafi verið um rannsóknarverkefni að ræða. Fyrsta skrefið hafi verið að kanna hvort einhverjir lifandi örþörungar leyndust í Mývatni. „Yfirleitt lifa þeir við miðbaug en vegna heita vatnsisn sem  rennur inn í Mývatn þá er það á sumum stöðum mjög hlýtt sem býr til einstakar aðstæður fyrir þessa örþörunga til að vaxa,“ segir Dagbjört og bætir við að það hafi tekið nokkur ár og mikið af sýnum til að finna tvær tegundir af örþörungum sem lifa náttúrulega í Mývatni. „Það eru Spirulina og Chlorella sem við höfum verið að rækta síðan.

Dagbjört segir jafnframt að árið 2018 hafi verið ákveðið að finna leiðir til að láta þessa örþörunga vaxa innandyra, en þeir noti ljóstillífun til að vinna orku úr ljósinu. „Ef þú gefur þeim að ákveðin sölt og æti og geymir þær í vatni við rétt hitastig þá vaxa þeir mjög hratt,“ útskýrir Dagbjört og bætir við að í tvö ár hafi verið gerðar tilraunir með að útbúa kerfi sem þörungarnir fjölguðu sér í.

„Síðan var ákveðið að taka þetta skrefinu lengra og sjá hvort hægt væri að gera eitthvað viðskiptalegt úr þessu. Þá var Júlía Katrín Björke fengin sem framkvæmdastjóri áður en ég tók. Það urðu ákveðin straumhvörf árið 2021 þegar við fengum  leyfi frá heilbrigðiseftirlitinu til að framleiða þessa örþörunga til manneldis . Það eru auðvitað ströng skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá slíkt leyfi,“ segir Dagbjört.

 Ofurfæða Asteka

Örþörungar hafa verið nýttir til manneldis í árhundruð og eru m.a. heimildir fyrir því að Astekar hafi safnað þessum örþörungum úr Texcoco-vatni í miðri Mexíkó, og gert úr þeim kökur. Munnlegar heimildir herma að sendiboðar og hlauparar frá Mexíkó til forna hafi borðað þurrkaðar spirulina kökur með maís, tortillum, baunum, chilli sem orkugjafa fyrir langferðir.

„Þessir örþörungar eru notaðir í ótrúlega margt, bæði í lyfjaframleiðslu, í fæðurbótarefni og í mat því þetta er mjög próteinríkt eins og spirulinan, hún er yfir 70 prósent prótein,“ útskýrir Dagbjört.

 Heillaðist af verkefninu

Dagbjört segir að hún hafi kynnst Júlíu fyrir tilviljun þegar hún var framkvæmdastjóri Mýsköpunar. „Ég ákvað að hoppa á lestina, fannst þetta spennandi verkefni enda nýbúin með MBA-nám. Mig langaði til að láta þetta fyrirtæki vaxa og verða að einhverju og það hefur raungerst eftir að leyfið fékkst. Við erum búin að fara í hlutafjáraukningu upp á 100 milljónir og lítum björtum augum til framtíðar,“ segir hún. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leiddi þá hlutafjáraukningu en  aðrir stórir fjárfestar voru Upphaf - fjárfestingasjóður KEA, Jón Ingi Hinriksson ehf. í Mývatnssveit, Jarðböðin og Fjárfestingarfélag Þingeyinga.

 Ljóstillífa í glertúbumMysköpun

„Þetta fjármagn notuðum við til að kaupa nýjan búnað frá Hollandi sem er alveg það nýjasta. Þetta eru svona glertúbur sem taka að minnsta kosti 1500 lítra af lífmassa, svo eru led ljós sem lýsa á þessar túbur; þannig vex spirulinan. Við erum nýkomin með þann búnað og erum núna að vinna í að skala upp til að setja inn í þann búnað. Þetta verður mjög spennandi verkefni,“ útskýrir Dagbjört en bætir við að í upphafi verði horft fyrst og fremst á heimamarkað.

 Fæðubótarefni í Jarðböðunum

„Við ætlum að byrja á því í sumar að vera með þurrar spirolinur í litlum umbúðum og ætlum að einblína á nærumhverfið og selja í Jarðböðunum og þar í kring. Við erum enn að ákveða hvaða stefnu við ætlum að taka hvað framtíðina varðar og stækkun. Við ætlum að byrja á þessu og það verður þessi nýja vara sem kemur út í sumar sem heitir Mýspirulina sem er  fæðubótarefni; duft sem verður hægt að blanda við vatn eða  smoothie [smúðul]. Spirulinan inniheldur ekki aðeins prótín heldur eru andoxunarefni í þessu og fleira sem er gott fyrir líkamann. Þetta er líka gott fyrir meltinguna, við lítum  þetta sem algjöra ofurfæðu,“ segir Dagbjört.

 Í samstarf við laxeldið

Og það er fleira á döfinni hjá Mýsköpun en að framleiða smáþörunga til manneldis því það eru vaxtartækifæri í fiskeldi einnig. „Við fengum sl. haust styrk frá Tækniþróunarsjóði. Það er verkefni sem við erum að fara vinna að í samstarfi við Laxá fóðurverksmiðju og Samherja fiskeldi. Við erum að byrja á því núna en það gengur út á að kanna fýsileika þess að nota bæði Spirúlínu og Chlorellu í sitt hvoru lagi sem hluta af fóðri fyrir laxaseiði. Þetta hefur verið gert í eldi á öðrum fisktegundum úti í heimi en þetta yrði í fyrsta sinn svo við vitum að þetta sé notað í fóður fyrir laxaseiði,“ segir Dagbjört.

Í dag starfa þrír starfsmenn að Dagbjörtu meðtalinni hjá Mýsköpun en stefnan er sett hátt og segir Dagbjört góða möguleika á að fjölga störfum í tengslum við líftækniðnað og rannsóknir en einnig við umsjón og viðhald með tækjabúnaði.

„Okkar stefna er að gera þetta mjög stórt, byggja upp skemmu sem er nálægt virkjun á svæðinu hvort sem það yrði Krafla, Bjarnarflag áfram eða Þeistareykir og þá gæti störfum fjölgað í kjölfarið,“ segir Dagbjört að lokum.

 


Athugasemdir

Nýjast