„Myndlistin hefur alltaf blundað svolítið í mér“

Frímann á einni af sínum 15 málverkasýningum. Mynd/Hafþór Hreiðarsson.
Frímann á einni af sínum 15 málverkasýningum. Mynd/Hafþór Hreiðarsson.

Frímann Sveinsson þekkja flestir Húsavíkingar sem Frímann kokk enda kom hann frá Norðfirði sem matreiðslumaður til Húsavíkur og starfaði sem slíkur í 35 ár í bænum, lengst af á sjúkrahúsinu. Enda þótt viðurnefnið muni eflaust tolla við hann það sem eftir er þó hann hafi hætt störfum á síðasta ári, þá er hann ekki síður þekktur sem myndlistamaður og tónlistamaður.

Nú hefur Frímann líka nægan tíma til að sinna listinni og hann hreinlega stoppar ekki. Hann heldur nú sína 15. málverkasýningu á sínum 20 ára ferli sem myndlistamaður. Sýningaropnun er laugardaginn 6. maí í Safnahúsinu á Húsavík klukkan 14.

Á sýningunni verða um 40 vatnslitamyndir allar málaðar árið 2022 og 2023 og eru þetta landslags-, uppstillingar-,og fígúrutífarmyndir.

Treður upp kvöld eftir kvöld

Það kom blaðamanni ekki á óvart þegar hann heyrði í Frímanni á mánudagskvöld sl., að þá var hann upptekinn við að róta á Fosshótel Húsavíkur hvar hann átti að skemmta þá um kvöldið. Frímann gaf sér engu að síður tíma til að ræða við blaðamann þar sem hann sagði meðal annars frá því hvað ýtti honum út í myndlist á sínum tíma.

 Innblástur frá meistara

Hann segist hafa byrjað að mála að gagni fyrir 20 árum síðan eftir að hafa orðið fyrir innblæstri frá örðum miklum meistara á Húsavík.

„Það var nú ekki ómerkari maður en Sigurður Hallmarsson heitinn. Það var goðsögnin hér á staðnum. Ég var alltaf svo hrifinn af myndunum hans og heillaðist af þessu,“ segir Frímann og bætir við að hann hafi síðan kynnst Sigurði betur, fyrst reyndar í gegn um tónlistina.

„Svo spurði hann mig hvort ég vildi ekki koma í smá leiðsögn í myndlist, enda reynslubolti sjálfur. Svo sótti ég að minnsta kosti tvö eða þrjú námskeið sem hann hélt hérna á Húsavík. Svo kom hingað maður sem heitir Derek Mundel, hann er myndlistarkennari í Myndlistaskóla Kópavogs en kom hingað og hélt námskeið sem ég sótti,“ útskýrir Frímann.

 15 einkasýningar

Frímann hafði leikið sér við að teikna frá því hann man eftir sér en þegar kom að því að mála þá var hann blautur á bak við eyrun.

„Ég hef alltaf teiknað mikið alveg frá því ég var krakki og myndlistin hefur alltaf blundað svolítið  í mér. Það er svo ekki fyrr en ég flutti til Húsavíkur og sé vatnslitamyndir Sigurðar þá kollféll ég fyrir kallinum. Þetta er 15. sýningin mín hér á Húsavík,“ segir Frímann stoltur.

„Ég er með gestabók sem ég var að fara í gegn um og taldi þetta saman og sýningarnar eru orðnar þetta margar. Að vísu ekki allar í Safnahúsinu, ég hef verið að sýna á fleiri stöðum hér á slóðum.“

Þó Frímann hafi hætt formlega á vinnumarkaðnum fyrir ári síðan hefur hann verið afar áberandi í samfélaginu sem fyrr enda loks nægur tími til að sinna ástríðunum. „Já, ég er alltaf að og þessar myndir sem ég er að fara sína eru allar frá 2022-23. Ég hef alltaf hallast mest af landslagsmyndum enda undir sterkum áhrifum af Sigurði Hallmarssyni,“ segir hann og bætir við að hann hafi verið mikið í því að mála landslagsmyndir eins og lærifaðir hans í myndlistinni. „Ég hef málað mikið af því en einnig verið í figúratívum myndum og uppstillingum en þær einkenna einmitt þessa sýningu,“ segir Frímann en allar myndir hans á sýningunni eru vatnslitamyndir.

 Tónlistarmaðurinn

Frímann og Effý

Hin ástríða Frímanns er tónlistin en hann hefur troðið upp fyrir Húsavíkinga og nærsveitamenn í áratugi við öll möguleg tækifæri. „Ég náttúrlega búinn að vera í þessu kokkeríi og spileríi  samhliða í öll þessi ár, ég er búinn að vera hér á Húsavík í 35 ár,“ segir Frímann og bætir við að hann hafi lært ungur á gítar. „Það hefur alltaf fylgt mér bæði austur á Norðfirði og svo eftir að ég kom hingað,“ segir hann og alltaf mikið að gera hjá honum í tónlistinni.

Frímann hafði getið sér gott orð í tónlistinni í dúettnum Frímann og Hafliði ásamt Hafliða Jósteinssyni en Hafliði lést árið 2018. Frímann hefur síðan haldið ótrauður áfram og frekar gefið í en hitt. „Núna síðustu 20 ár hef ég gefið verulega í og mikið að gera hjá mér í þessu. Ég er til dæmis að fara upp í Mývatnssveit á morgun [þriðjudag sl.] að skemmta eldri borgurum þar á heilsuviku sem verið er að standa fyrir. Þetta er viðburður  þar sem eldri borgarar eru að koma saman og skemmta sér og fleira. Eins hef ég mikið verið suður í Aðaldal að skemmta eldri borgurum þar og hér á pöbbunum árum saman,“ útskýrir Frímann. En hann hefur að mestu spilað einn eftir að Hafliðið kvaddi en reyndar treður dóttir Hafliða stundum upp með honum enda frábær söngkona.

„Hún verður með mér í kvöld [mánudagskvöld sl.] og eins á aðalfundi Kvenfélagsins en mest er ég bara einn.“

 Alltaf nóg að gera

Frímann og Hafliði

Eins og komið hefur fram hætti Frímann í matreiðslunni á síðasta ári en það hefur ekki verið neitt minna að gera hjá honum eftir það. Hann er úti um allt, ýmist að spila eða sýna málverkin sín.  

„Nei það er aldeilis ekki minna að gera hjá mér, maður er út um allt og svo syng ég líka í Sálubót sem er kór suður í Þingeyjarsveit. Við erum að fara halda þrenna tónleika þar í vikunni, þannig að þessi vika er aldeilis pökkuð hjá mér,“ segir Frímann.

Aðspurður hvort hann hafi ekki tíma til að fara út í pólitík á efri árunum, hlær hann við og þvertekur fyrir það. En tekur þó fram að hann  sé viðriðinn sóknarnefnd Húsavíkur, það sé það næsta sem hann komist pólitík.

„Ég er búinn að vera í sóknarnefnd Húsavíkurkirkju í 20 ár og er varaformaður í dag. Ég hef meira að segja verið að hlaupa undir bagga með Sólveigu sóknarpresti og verið að hjálpa til með Sunnudagaskólann og meira segja verið viðriðinn messuhald upp í Hvammi [Dvalarheimili aldraðra], þegar þannig hefur hitt á,“ segir Frímann og bætir við að hann hefði eflaust fengið ADHD greiningu ef slíkar hefðu tíðkast þegar hann var barn.

„Hún var víst ekki til, ég hefði örugglega verið settur á pillur ef þetta hefði verið í umræðunni þá, en kannski sem betur fer þá slapp ég við það,“ segir Frímann að lokum.

Sýning hans opnar á Safnahúsinu á Húsavík, laugardaginn 6. maí klukkan 14.

Nýjast