Leikdómur - Bróðir minn Ljónshjarta, skemmtileg og falleg sýning

Eden B. Hróa í hlutverki Jónatans Ljónshjarta að senda skilaboð yfir í Kirsjuberjadal
Eden B. Hróa í hlutverki Jónatans Ljónshjarta að senda skilaboð yfir í Kirsjuberjadal

Leikfélag Hörgdæla - Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren í þýðingu Þorleifs Haukssonar í leikgerð Evu Sköld.

Leikstjóri:Kolbrún Lilja Guðnadóttir
Tónlistarstjóri: Svavar Knútur
Framkvæmdarstjóri:Kristján Blær Sigurðsson
Aðstoðarframkvæmdarstjóri:María Björk Jónsdóttir
Leikmyndahönnuður:Hafrún Bylgja Guðmundsdóttir
Ljósahönnuður:Þórir Gunnar Valgeirsson 

Bróðir minn Ljónshjarta er hugljúf saga af þeim bræðrum Snúð og Jónatan. Yngri bróðirinn Snúður er dauðvona en Jónatan reynir að hughreysta Snúð með því að segja honum að hann fari til Nangijala þegar hann deyr. Bræðurnir hittast þar mun fyrr en gert var ráð fyrir og þeir sjá fram á að allt verði dásamlegt í Kirsuberjadal, þangað sem þeir eru komnir. Það er þó ekki þannig því það er
svikari í Kirsuberjadal sem aðstoðar hinn grimma Þengil og hans
fólk, ásamt eldspúandi drekanum Kötlu sem eiga sitt aðsetur í Þyrnirósadal. Þau vilja ná völdum yfir öllu en bræðurnir hugrökku þurfa að berjast gegn þeim.
Alls eru 15 leikarar í sýningunni og fleiri tugir manns sem koma að sýningunni með einum eða öðrum hætti. 

Leikrit Astrid Lindgren eru löngu þekkt og eiga þau trúlega mikinn sess í hjörtum okkar. Ég myndi halda að Emil í Kattholti og Lína Langsokkur væru þeirra þekktust en í mínum huga hefur þessi saga ansi mikla sérstöðu. Sérstaðan liggur að nokkru leiti í fegurðinni og sorginni en það er líka vegna þess að þessi saga er ekki sú auðveldasta í uppsetningu. Gæti það verið ástæðan fyrir því að leikritið er mun sjaldnar sett upp en t.d. Lína Langsokkur? Ég held það og þess vegna þótti mér í ansi mikið ráðist þegar ég heyrði af þessari uppsetningu. 

En hvernig tekst að skapa ævintýraheim með fallegri sögu sem snertir hjörtu?
Það tekst mjög vel. Það er greinilega mikið lagt í uppsetninguna og gaman að sjá gamalreynda leikara hjá Leikfélagi Hörgdæla í bland við ný andlit. Í leikskrá segir frá því að mörg börn hafi komið í áheyrnarprufur og lúxusvandamál hafi orðið að velja úr hópi þeirra. Það sýnir sig því börnin í sýningunni fara afar vel með hlutverk sín. Þar á meðal er Katrín Birta Birkisdóttir sem leikur Snúð Ljónshjarta sem er aðalhlutverkið í sýningunni. Það er ansi stórt hlutverk og mikill texti sem þarf að skila. Katrín Birta skilar því vel og hefur útgeislun sem getur lýst upp allt heimsins myrkur. Ég hlakka til að fylgjast með henni í framtíðinni á leiksviðinu.
Eden Blær Hróa leikur Jónatan Ljónshjarta og gerir það mjög vel. Eden Blær hefur yfir 10 ára reynslu á leiksviðinu, þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs. Það er eins og það gerist sjálfkrafa að reynslu - og aldursmunur verði að sannfærandi leik litla og stóra bróður. Margar senur þeirra eru innilegar og fallegar. Ég verð að nefna lokasenuna þeirra sem er gerð af mikilli næmni og fegurð. 

Aðrir leikarar komast vel frá sínu. Þar á meðal eru Karen Ósk Kristjánsdóttir og Sigurður Viðarsson sem leika hina illu og vitlausu menn Þengils. Með þeirra hlutverkum kemur ansi skemmtilegur léttleiki og ekkert alltaf auðvelt að leika svona hlutverk sem þurfa að vera ýkt og heimskuleg. En þau gera það vel og krydda sýninguna. Mætti alveg halda áfram upptalningunni á leikurum en sjón er sögu ríkari. Það standa sig allir vel hvort sem það eru leikarar eða Kötlustjórinn Hólmfríður Lilja en Katla er ógnvekjandi dreki sem er ansi vel útfærður. 

Það tekst ákaflega vel að búa til hughrif í sýningunni, hvort sem það er með leik, leikmynd, búningum, ljósum eða hljóðheim Svavars Knúts. Þá skal tekið fram að vel er að verki staðið að koma þeim hljóðheim til skila. Tæknilausnir að láta hljóðin til dæmis koma úr hinum ýmsu áttum. Já lausnirnar eru mikið fyrir auga og eyra. Og ég verð líka að nefna Þorstein Viðar Hannesson sem er málari og teiknari í sýningunni. Handverk hans er algjört augnakonfekt. 

Í leikskrá sýningar er pistill frá formanni Leikfélags Hörgdæla, Fanneyju Valsdóttur en hún leikur einnig í sýningunni og gerir það óaðfinnanlega. Þar skrifar hún um það, hversu öflug áhugaleikfélögin á norðurlandi eru og gefa almenningi tækifæri á að taka þátt og upplifa. Þetta vil ég taka undir, hlutverk þessara félaga er mikið og hefur aukist á svæðinu; að setja upp leiksýningar fyrir almenning og fjölskylduna. Án þeirra væri ekki mikið um slíkt. 

Að lokum er vert að geta þess að svona leikdóma er hægt að skrifa alls konar. Á að horfa á gæði, lausnir eða upplifun? Upplifun getur verið margskonar og getur oft stjórnast af skapi eða aðstæðum þeirra sem skrifa.
Ég var svo heppinn að fá aðstoðar”dómara” með mér á sýninguna. Það voru Emilía Ósk og Haukur Heiðar Birkisbörn sem komu með afa til að sjá og upplifa. Þeirra upplifun átti að vera mikill mælikvarði á það, hversu góða umsögn þessi sýning fengi. Eftir sýningu voru þau mjög glöð og mikið spjallað í bílnum á leiðinni heim. Sagan náði til þeirra, þeim fannst hún falleg og skemmtileg. Gaman fyrir þau líka að sjá leikara á þeirra aldri á sviðinu standa sig svona vel. Þau nefndu líka að rýmið væri vel nýtt, þ.e. leikið inni í sal líka, sem þeim þótti skemmtilegt. 

Við þrjú mælum heilshugar með því að fara á þessa sýningu.
Hún er skemmtileg og falleg fyrir börnin. Afi gamli var líka hrifinn og komst við. 

Til hamingju Leikfélag Hörgdæla.

Pétur Guðjónsson, Emilía Ósk og Haukur Heiðar

 

Nýjast