VMA brautskráði 139 nemendur í dag

 

Eitthundrað þrjátíu og níu nemendur voru í dag brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi. Heildarfjöldi brautskráningarskírteina var 163 því 24 nemendur útskrifuðust í dag með tvö prófskírteini. Í desember sl. brautskráði VMA 86 nemendur og því hefur skólinn útskrifað 225 nemendur á þessu skólaári. Greint er frá þessu á vef skólans.

 

Í upphafi brautskráningarræðu sinnar í dag sagði Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari það mikið ánægjuefni að geta nú loks útskrifað nemendur frá skólanum án samgöngutakmarkana og sóttvarnaaðgerða, sem hafi verið staðreyndin á síðustu fjórum útskriftum

 

„Við höfum öll fundið fyrir áhrifum Covid á líf okkar síðustu rúmlega tvö ár, sumt er komið til að vera en annað erum við fegin að hafði ekki varanleg áhrif. Breytingar í kjölfar heimsfaraldurs hafa mismunandi áhrif á kynslóðir og ég er nokkuð viss um að fólk á mínum aldri sér áhrifin með öðrum hætti en þeir sem yngri eru. Við munum eftir störfunum okkar fyrir covid og hvernig vinnustaðurinn var bara á sínum stað. Sumir í göngufæri við vinnustaðinn en aðrir keyra tugi kílómetra til að komast á sinn stað í vinnuna. Bara fyrir nokkrum árum þurftum við að fara á milli staða til að fá stimpla og undirskriftir vegna erinda við hið opinbera. Við tókum út gjaldeyri í alvöru bréfpeningum áður en við fórum til útlanda - við meira að segja eigum sum enn bleika eða græna vélritaða ökuskírteinið okkar. 

 

Unga fólkið sem við sjáum hér á sviðinu mun hins vegar ganga inn á vinnustaði framtíðarinnar með öðrum hætti. Það mun ekki bara hafa val heldur gerir það kröfu um að fá að stjórna vinnu sinni meira sjálft og staðsetning hefðbundinna skrifstofu- og þjónustustarfa verður ekki endilega með viðveru í húsnæði fyrirtækis eða stofnunar. Á næstu árum kemur fólk inn á vinnumarkaðinn með annað hugarfar og hugmyndir þess um störf verða aðrar en t.d. mín kynslóð hefur. Unga fólkið mun ekki þekkja störfin og starfsumhverfið eins og það er í dag og alls ekki eins og það var fyrir árið 2019. Sjálfvirkni og jafnvel sýndarveruleiki verður stór hluti í vinnuumhverfi framtíðarinnar og vinnustaðurinn verður næstum hvar sem er og þar sem það hentar út frá eðli starfsins, vinnustað og starfsmanni,“ sagði Sigríður Huld. 

Nánari umfjöllun og myndir má sjá með því að smella HÉR

 

 

Nýjast