Þrír nýir framkvæmdastjórar á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Ráðið hefur verið í þrjár stöður framkvæmdastjóra við Sjúkrahúsið á Akureyri sem auglýstar voru í nóvember sl. Stöðurnar eru veittar til 5 ára en nýir framkvæmdastjórar eru; Hildigunnur Svavarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar og jafnframt framkvæmdastjóri bráða-, fræðslu- og gæðasviðs, Sigurður E. Sigurðsson framkvæmdastjóri lækninga og jafnframt framkvæmdastjóri handlækningasviðs og Gróa B. Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri lyflækningasviðs.

Nýir framkvæmdastjórar taka við störfum 1. febrúar nk. en þá tekur gildi nýtt stjórnskipulag og skipurit sjúkrahússins. Framkvæmdastjóranna bíða krefjandi verkefni við mótun innra skipulags á sviðunum og framkvæmd nýrrar stefnu sjúkrahússins með hagsmuni sjúklinga í fyrirrúmi.

Hildigunnur er 44 ára hjúkrunarfræðingur og hefur unnið á Sjúkrahúsinu á Akureyri í 17 ár. Hildigunnur útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá HA 1992. Hún lauk meistaranámi í hjúkrun við Caledoninan University í Glasgow árið 1997. Hildigunnur hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á slysa- og bráðamóttöku, verið hjúkrunardeildarstjóri, verkefnastjóri, skólastjóri sjúkraflutningaskólans og frá árinu 2008 starfað sem forstöðumaður deildar kennslu og vísinda. Auk þess hefur hún kennt við Háskólann á Akureyri. Hildigunnur hefur átt og á sæti í nefndum á vegum stjórnvalda á innlendum og erlendum vettvangi. Staðgengill framkvæmdastjóra bráða-, fræðslu- og gæðasviðs verður Jónas Franklín.

Sigurður E. Sigurðsson er 51 árs læknir og hefur unnið á Sjúkrahúsinu á Akureyri í 11 ár. Sigurður útskrifaðist sem læknir frá Háskóla Íslands 1987 og fékk viðurkenningu sem sérfræðingur í svæfingalækningum í Svíþjóð 1995 og á Íslandi 1997. Sigurður hefur lokið Diplómanámi í heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun. Auk þess að starfa sem sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum hefur Sigurður m.a. gegnt starfi yfirlæknis á gjörgæsludeild, verið staðgengill framkvæmdastjóra lækninga og gegnt starfi framkvæmdastjóra lækninga frá júlí 2011. Sigurður hefur átt og á sæti í nefndum á vegum Velferðarráðuneytisins. Staðgengill framkvæmdastjóra handlækningasviðs verður Anna Lilja Filipsdóttir

Gróa B. Jóhannesdóttir er 42 ára læknir og hefur unnið á Sjúkrahúsinu á Akureyri í 5 ár. Gróa útskrifaðist sem læknir frá Háskóla Íslands 1995 og fékk viðurkenningu sem sérfræðingur í barnalækningum árið 2004. Gróa lýkur meistaranámi í opinberri stjórnsýslu vorið 2012. Auk þess að starfa sem sérfræðingur í barnalækningum hefur Gróa verið staðgengill yfirlæknis barnadeildar og starfað sem staðgengill framkvæmdastjóra lækninga frá maí 2011. Staðgengill framkvæmdastjóri lyflækningasviðs verður Þóra Ákadóttir starfsþróunarstjóri.

Þetta kemur fram á vef FSA.

 

Nýjast