Þingför eða aðför?

Ásta DF. Flosadóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Ásta DF. Flosadóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag

Kjördagur nálgast óðfluga, frambjóðendur með þingmanninn í maganum keppast við að ná augum og eyrum kjósenda, það er engin gúrkutíð hjá fjölmiðlum landsins meðan á kosningabaráttu stendur. Og athygli beinist að sumum frekar en öðrum, stundum fyrir ábyrðarlausan málflutning, hnyttin slagorð eða jafnvel forkastanlega hegðun.

Þessi kosningabarátta er aðeins sérstök, hún virðist frekar snúast um stemningu en málefni eða stefnu. Jafnrétti og bræðralag virðast dottin úr tísku. Öfgar eða minni öfgar eru málið. Sumir segjast vera með plan, en það var Bláa lónið líka með og fór frekar illa fyrir því...  Línur milli vinstri og hægri virðast vera óskýrari, tilfinningin að vísu sú að eitthvað sé um úlfa og sauðagærur í því tilliti. Og spurningin sem liggur óspurð í loftinu, sennilega sú mikilvægasta af öllum; af hverju viltu fara á þing?

Á sunnudagsmorgun, fullveldisdaginn 1. desember, er nauðsynlegt að 63 manneskjur séu með svarið fastmótað. Ertu með hugsjón? Langar þig að bæta bresti í innviðum samfélagsins? Bæta leikreglurnar? Berjast fyrir þitt kjördæmi? Viltu fara á þing til að ganga erinda ákveðinna fyrirtækja? Ertu til sölu? Er stefnan að hlú að ríkisfjósinu eða selja bestu mjólkurkýrnar? Þarftu að sjá til þess að völdin haldist í ,,réttum” höndum, passa upp á hagsmuni fjölskyldu eða vina? Ætlarðu að kyssa vöndinn og hlýða flokknum? Viltu auka misskiptingu auðs og auðlinda landsins, eða hugsa um samfélagið sem heild? Skiptir fólk máli eða bara sumt fólk? Þjónn þjóðarinnar eða þrælahaldari? Er markmiðið að vinna með hinum 62 þingmönnunum og mæta samviskusamlega í vinnuna, eða ætlarðu að sitja heima og krota á myndir af þeim? Snýst þetta ef til vill bara um eigið egórunk, eðlilegt framhald af persónulegu framapoti?

Við þessum spurningum hafa kjósendur ekki fengið svör. Við getum bara getið okkur til um svörin. Í sumum tilfellum er það auðvelt, öðrum erfiðara. Og okkar er svo að skunda á kjörstað og kjósa rétt. Vonandi tekst það.

Nýjast