20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Stórhátíð skapandi greina á Húsavík
HönnunarÞing er hátíð hönnunar og nýsköpunar sem haldin verður á Húsavík 3.-5. október nk. en þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin á Húsavík. Áherslan í ár er tónlist og margvíslegar birtingarmyndir snertiflata hönnunar og tónlistar.
Á dagskránni verða meðal annars erindi frá prófessor við Listaháskóla Íslands, bátahönnuður, hugarheimur Skálmaldar, ný hljóðtækni, stjórnarmanneskja frá Bang & Olfusen og tónlistaruppákomur.
Hildur Halldórsdóttir, verkefnastjóri SSNE á Húsavík er um þessar mundir á kafi í undirbúningi fyrir hátíðina í samtarfi við Hraðið nýsköpunarmiðstöð.
Tónlist og hönnun
„Í fyrra var áhersla lögð á vöruhönnun en í ár er áherslan á samspil tónlistar, hönnunar og nýsköpunar. Þetta er snýst í raun alltaf um hönnun og nýsköpun en svo kemur alltaf einhver nýr snertiflötur inn á hverju ári og í ár er það tónlist,“ útskýrir Hildur og bætir við að ákveðið hafi verið að halda hátíðina að hausti að þessu sinni.
Lengja heimsóknartímann
„Eftir samtal við Húsavíkurstofu, bæði svona til að vinna með fyrirtækjunum á svæðinu í þeim tilgangi að lengja aðeins í heimsóknatímabilinu á Húsavík og hjá þjónustugeiranum og líka bara til að hafa eitthvað skemmtilegt um að vera á þessum tíma,“ segir Hildur en hátíð sem þessi dregur allaf talsvert af gestum til bæjarins.
„Já við alla vega vonum það, í fyrra voru listaháskólanemar hjá okkur alla vikuna enda er þetta líka til þess gert að sýna hvað Húsavík hefur upp á að bjóða fyrir nemendur í listaháskóla. Þau voru líka ótrúlega ánægð með aðstöðuna í fyrra þessir aðilar frá Listaháskólanum og það eru aftur vöruhönnunarnemendur sem koma í ár, því við erum með svo flott Fab-lab sem þau eru mjög hrifin af,“ segir Hildur og kveðst vera afar stolt af aðstoðunni sem boðið er upp á á Húsavík.
Stolt af aðstöðunni á Húsavík
„Ég veit að við erum búin að segja það svo oft ég og Stefán [verkefnastjóri Hraðsins Nýsköpunarmiðstöðvar Húsavíkur og Fab Lab og jafnframt sambýlismaður Hildar] en það vita það ekki allir hversu skemmtileg þessi aðstaða er og ánægjulegt fyrir okkur að Listaháskólinn kjósi að koma aftur.“
Fjölbreytt dagskrá
Blaðamaður renndi yfir fjölbreytta dagskrá hátíðarinnar og hnaut um að þungarokki er gert hátt undir höfði. Má þar nefna að Guðmundur Oddur Magnússon eða Goddur, prófessor í grafískri hönnun og listamaður mun flytja erindi um myndmál í þungarokki. Goddur starfar sem sjálfstæður hönnuður meðfram kennslu og vinnur mest að hönnun fyrir menningarstofnanir.
Þá mun Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari og textasmiður, fjallar um sagnaheim Skálmaldar, tilurð hans, verkin sjálf og hvernig fleira en sjálf hljómsveitin, tónlistin og textarnir hafa tekið þátt í að móta þetta allt saman. Fyrirlesturinn verður með afslöppuðu sniði og gott rými fyrir spjall og spurningar.
„Já, þetta er svo einstakt myndmál og textagerð sem er verið að vinna með þar og í rauninni heimurinn sem er búinn til í kringum Skálmaldar konseptið,“ segir Hildur.
Það er Hraðið nýsköpunarmiðstöð sem stendur að hátíðinn og gerir það í nafni lista og nýsköpunar á Húsavík. „Hraðið er að draga saman aðila að borðinu, bæði úr stoðumhverfinu og allt þetta skapandi fólk til að búa til þessa gerjun, láta fólk úr ólíkum geirum mætast og Hönnunarþingið er ein af þessum afurðum Hraðsins. Ég kem inn í þetta sem starfsmaður SSNE sem hefur þau markmið að efla nýsköpun, atvinnuþróun og menningu og ég sinni sérstaklega skapandi greinum þannig að þetta lá vel við, fyrir utan það að ég er sérleg áhugamanneskja um þessar greinar,“ segir Hildur að lokum.