Staða sveitarstjóra á Svalbarðsströnd auglýst – Björg sækir ekki um
Staða sveitarstjóra í Svalbarðsstrandahreppi verður auglýst laus til umsóknar og ætlar Björg Erlingsdóttir sem verið hefur sveitarstjóri síðastliðin fjögur ár ekki að sækja um. „Tími minn á Svalbarðsströnd hefur verið viðburðaríkur og fjölbreytt verkefni sem leysa þarf þegar kemur að rekstri sveitarfélags,“ segir Björg í pistli á vefsíðu sveitarfélagsins í tilefni af því að nú er komið að kveðjustund. „Síðastliðin fjögur ár hafa verið gríðarlega lærdómsrík fyrir mig persónulega og ýmislegt sem ég var að gera í fyrsta skipti.“
Björg þakkar starfsmönnum Svalbarðsstrandarhrepps fyrir frábært samstarf á erfiðum og krefjandi tímum – „við náðum að sigla í gegnum COVID storminn með samstarf, samhug og samlyndi að vopni,“ segir hún.
Jákvæðni og heilindi í störfum
„En það er líka þörf á að standa vörð um samfélagið og hafa þrek til þess að slá á óvægna samfélagsumræðu frekar en að vera sá sem magnar hana upp. Ég hef reynt að temja mér jákvæðni og heilindi í störfum og samskiptum við fólk, málin geta sannanlega verið snúin og sum hver erfið en með jákvæðni og virðingu að leiðarljósi trúi ég því að leysa megi úr snúnustu málum. Það má alltaf gera betur og allir gera einhvern tíma mistök, það geri ég líka. Mestu skiptir að læra af mistökum og halda áfram veginn, reynslunni ríkari.“
Í örum vexti
Björg nefnir að Svalbarðsstrandarhreppur hafi verið í jöfnum vexti, mikil uppbygging á íbúðahúsnæði í suðurhluta hreppsins og á Svalbarðseyri, mikill fjöldi lóða er í boði og á næstu misserum ætti hreppurinn að geta vaxið og eflst enn frekar.
Uppbygging göngu- og hjólastígs standi uppúr og vonandi haldi ný sveitarstjórn þeirri vinnu áfram. Gatnagerð og húsbyggingar hafa tekið sinn tíma og í lok sumars ætti uppskeran að vera sýnileg, íbúar fluttir í nýjar íbúðir í Bakkatúni, húsbyggingar hafnar í Tjarnartúni og Bakkatúni og frágangi gatna lokið.
Samfélagsumræðan oft og tíðum óvægin
„Starf sveitarstjóra er einkar skemmtilegt en á stundum hefur róðurinn verið þungur og þá einna helst þegar kemur að óvæginni umræðu innan samfélagsins. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga varð samfélagsumræðan oft á tíðum óvægin. Umræða þarf að vera gagnrýnin en sanngjörn og rétt. Umræðan getur auðveldlega farið á refilstigu og hlutverk embættismanna og sveitarstjórnarfólks er að upplýsa á traustum miðlum um stöðu mála, þau verkefni sem verið er að vinna að og hvernig rekstur sveitarfélagsins gengur. Það er hins vegar mikilvægt að þeir sem taka þátt í umræðunni setji sig inní þau mál sem til umræðu eru og forðist sleggjudóma og hártoganir sem engu skila þegar upp er staðið. Oft þarf að taka erfiðar ákvarðanir sem fylgja starfi sem þessu og sumar þeirra eru ekki vinsælar,“ segir Björg í pistli sínum.