27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Ríkið fer fram á að Akureyrarbær fjármagni bílakjallara við heilsugæslustöð
Bæjarráð Akureyrar getur ekki fallist á skyndilega beiðni ríkisins um að Akureyrarbær fjármagni bílakjallara undir nýrri heilsugæslustöð sem til stendur að reisa á við tjaldstæðisreitinn við Þórunnarstræti. Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir sendi bænum erindi þar sem fram kemur að heilbrigðisráðuneytið hafi ekki fjármagn til að byggja bílakjallara undir heilsugæslu suður og er lagt til að bærinn taki þann kostnað að sér verði ekki fallið frá þeirri kröfu að hafa bílakjallara undir heilsugæslustöðinni.
Bílakjallari forsenda fyrir heilsugæslu á þessum stað
Fjallað var um þetta mál í skipulagsráði í mars og þá hafnaði ráðið ósk Framkvændasýlsunnar-Ríkiseigna um að breyta skipulagi lóðarinnar í þá átt að ekki yrði gert ráð fyrir bílakjallara heldur yrði bílastæðum ofanjarðar fjölgað þess í stað. Lýsti skipulagsráð yfir vonbrigðum með að ekki væri vilji fyrir því að gera bílakjallarann undir heilsugæslunni en við það hefði verið miðað frá því skipulagsvinna hófst á svæðinu veturinn 2020 til 2021. Bílakjallari er forsenda fyrir því að heilsugæslan verði byggð á þessu svæði. Hvatti ráðið eindregið til þess að að gert yrði ráð fyrir umræddum kostnaði við uppbyggingu heilsugæslunnar svo ekki verði tafir á framvindu verkefnisins enda ótækt að heilsugæslan búi lengur við núverandi húsnæðiskost.
Bæjarráð tekur undir bókun skipulagsráðs og getur ekki fallist á þessa skyndilegu beiðni ríkisins um að bærinn fjármagni bílakjallarann. Fól ráðið bæjarstjóra að ræða við Framkvæmdasýslu-Ríkiseignir og kynna þeim afstöðu bæjaryfirvalda.