27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Ný sveitarstjórn tekin við í Norðurþingi
Fyrsti sveitastjórnarfundur nýrrar sveitastjórnar í Norðurþingi hófst nú rétt í þessu. Þar kynnti nýr meirihluti B-lista Framsóknarflokks og félagshyggju og D-lista Sjálfstæðisflokks málefnasamning sinn.
Samkvæmt málefnasamningi flokkanna tveggja kemur fram að meginmarkmið kjörtímabilsins sé að fjölga íbúum Norðurþings um 100, stuðla að því að iðnaðarsvæðið á Bakka verði komið vel af stað í uppbyggingu á grundvelli grænna iðngarða, með fyrirtækjum sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi.
„Markmið okkar er að orka í Þingeyjarsýslum verði nýtt á grunni sjálfbærni hér á svæðinu með tilheyrandi fjölgun starfa og fjölbreyttum atvinnutækifærum,“ segir í samningnum.
Þá verði lögð áhersla á að lóðir til byggingar íbúða og atvinnuhúsnæðis séu ætíð lausar til umsóknar og bið eftir afhendingu lóða sé ekki of löng.
Einnig verði áhersla á málefni barna í anda verkefnisins barnvænt samfélag. Að stuðlað að lýðheilsu barna og ungmenna, auka hamingju og velferð.
Ný sveitarstjórn Norðurþings, frá vinstri: Jónas Þór Viðarsson V-lista(varamaður fyrir Aldey Unnar Traustadóttur), Áki Hauksson M-lista, Bylgja Steingrímsdóttir B-lista (varamaður fyrir Eið Pétursson), Hjálmar Bogi Hafliðason oddviti B-lista, Hafrún Olgeirsdóttir oddviti D-lista, Soffía Gísladóttir B-lista, Ingibjörg Benediktsdóttir V-lista, Helena Eydís Ingólfsdóttir D-lista og Benóný Valur Jakobsson S-lista. Mynd/epe
Málefnasamninginn má lesa í heild sinni hér fyrri neðan:
Málefnasamningur
um meirihlutasamstarf Framsóknarflokks (B) og Sjálfstæðisflokks (D) um stjórnun sveitarfélagsins Norðurþings kjörtímabilið 2022 til 2026.
Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn gera með sér eftirfarandi samkomulag um meirihlutasamstarf í sveitarstjórn Norðurþings kjörtímabilið 2022-2026.
Fulltrúar listanna munu vinna að þessu samstarfi af heilindum og með hagsmuni íbúa og sveitarfélagsins að leiðarljósi.
Lagt er til að:
Sveitarstjóri verði faglega ráðinn.
Forseti sveitarstjórnar verði fulltrúi af B lista og annar varaforseti fulltrúi af D lista.
Formaður byggðarráðs verði fulltrúi af D lista og að varaformaður verði fulltrúi af B lista.
Formaður skipulags- og framkvæmdaráðs verði fulltrúi af B lista.
Formaður fjölskylduráðs verði fulltrúi af D lista.
Nefndarkjör
Í fastanefndir tilnefnir B listi tvo fulltrúa og D listi einn fulltrúa.
Meginmarkmið
- Fjölga íbúum um 100 á kjörtímabilinu.
- Við viljum stuðla að uppbyggingu í anda grænna iðngarða á iðnaðarsvæðinu á Bakka í, með fyrirtækjum sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi og sú uppbyggin verði komin vel á veg á kjötímabilinu. Markmið okkar er að orka í Þingeyjarsýslum verði nýtt á grunni sjálfbærni hér á svæðinu með tilheyrandi fjölgun starfa og fjölbreyttum atvinnutækifærum.
- Við leggjum áherslu á að byggingarlóðir fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði séu ætíð lausar til umsóknar og bið eftir afhendingu sé ekki of löng.
- Áhersla verði á málefni barna í anda verkefnisins barnvænt samfélag sem styður sveitarfélagið í að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
- Stuðla að lýðheilsu barna og ungmenna, auka hamingju og velferð.
Á kjörtímabilinu:
Byggða- & atvinnumál
- Vinna að uppbygging á iðnaðarsvæðinu á Bakka með nýtingu á orku í Þingeyjarsýslum og áherslu á nýsköpun. Skipuð verður verkefnastjórn með aðkomu haghafa og sveitarfélaga.
- Tryggja staðbundnar bjargir til atvinnuþróunar með störfum atvinnufulltrúa á Kópaskeri og Raufarhöfn.
- Lögð verði sérstök áhersla á markaðs- og kynningarmál svæðisins. Gera sveitarfélagið eftirsóknarverðan stað til að búa og starfa í.
- Hlúa að starfsumhverfi fyrirtækja sem fyrir eru, t.d. í landbúnaði, sjávarútvegi, fiskeldi, ferðaþjónustu og iðnaði. Tryggja framboð af lóðum fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi.
- Styðja við nýsköpun og atvinnuþróun.
- Störf hjá sveitarfélaginu verði auglýst án staðsetningar innan sveitarfélagsins eftir eðli og tilgangi starfa.
- Sækja um byggðakvóta til Húsavíkur og sækja um aukinn byggðakvóta á Kópaskeri og Raufarhöfn.
- Vera í góðu samstarfi við aðila atvinnulífsins og stéttarfélög m.a. um rétta lögheimilisskráningu starfsmanna til að tryggja útsvarstekjur til sveitarfélagsins.
Skipulags- og umhverfismál
- Ljúka vinnu við umhverfisstefnu sveitarfélagsins sem hófst á síðasta kjörtímabili.
- Taka upp aðalskipulag fyrir sveitarfélagið.
- Fara í hugmyndasamkeppni um uppbyggingu miðbæjar á Húsavík þar sem hafnarsvæði, Búðargil, Öskjureitur og miðbær tengjast.
- Farið verður í yfirborðsfrágang á Öskjureit og unnið að framtíðarsýn svæðisins.
- Skógrækt verður aukin við þéttbýli.
- Lóðir við uppbyggðar götur verði boðnar á afslætti gegn skilyrtum byggingartíma.
- Nýta byggingarlóðir sem eru klárar til uppbyggingar.
- Lögð verður áhersla á fegrun umhverfis og farið í umhverfisátak innan sveitarfélagsins.
- Kanna möguleika á nýtingu vindorku og smávirkjana og halda áfram jarðhitaleit samhliða skipulagsferli.
- Kanna sölu eigna sem sveitarfélagið telur sig ekki hafa not fyrir.
- Byggja upp göngu- og hjólaleiðir.
- Endurskoða fyrirkomulag sorpmála samhliða nýrri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi og nýrri lagasetningu.
Fjármál- og stjórnsýsla
- Við ætlum að finna leiðir til að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki, m.a. með áframhaldandi lækkun á álagningarprósentu fasteignaskatts.
- Endurnýja heimasíðu Norðurþings með áherslu á stafræna þjónustu og upplýsingamiðlun.
- Að Norðurþing verði leiðandi í þingeyskri samvinnu á grunni héraðsnefndar og landshlutasamtaka sem og í samstarfi sveitarfélaga um veitingu velferðarþjónustu.
- Endurskoða samþykktir um hverfisráð í þeim tilgangi að auka samskipti milli þeirra og stjórnsýslunnar.
- Halda íbúafundi um sveitarfélagið með sveitarstjórn og efla samtal kjörinna fulltrúa við íbúa, fyrirtæki og stofnanir.
- Efla upplýsingaflæði úr stjórnsýslunni til almennings s.s. raunkostnað við veitta þjónustu og ákvörðunartöku kjörinna fulltrúa.
- Sérstök áhersla á aðkomu nýrra íbúa af erlendum uppruna að stjórnsýslunni og samfélaginu
- Sveitarfélagið verður áfram aðili að rammasamningi ríkiskaupa en jafnframt endurskoða aðild að einstökum hlutum hans þegar þeir renna út og nýir eru gerðir.
Menntun- og menning
- Samþætta starf skólastiga við íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf.
- Byggja upp skólalóðir með skipulögðum hætti.
- Standa vörð um Framhaldsskólann á Húsavík.
- Efla tónlistanám í sveitarfélaginu.
- Veita systkinaafslátt í mötuneytum grunnskóla.
- Auka sérfræðiþjónustu innan skólakerfisins, s.s. með sálfræði- og talmeinaþjónustu.
- Stuðla að starfstengdu námi á grunnskólastigi.
- Skoða mismunandi útfærslur á sumarlokun leikskóla sem lið í aukinni samveru fjölskyldna.
- Áfram verður unnið með það viðmið að öllum börnum sem hafa náð eins árs aldri verði boðin vistun á leikskólum.
- Unnið verði eftir þeirri stefnu að halda úti leikskólaþjónustu á Kópaskeri að lágmarksskilyrðum uppfylltum.
- Koma á tengiliðaverkefni fyrir nýja íbúa með samstarfi sveitarfélagsins, vinnustaða og félagasamtaka.
- Móta framtíðarstefnu um uppbygging á menningarhúsnæði og fá meira líf í menningarhúsnæði sveitarfélagsins í góðu samstarfi við starfsfólk og aðra eigendur.
- Styðja við og gera bæjarhátíðum og öðrum árlegum viðburðum hærra undir höfði.
Velferðarmál
- Koma á fót félagsmiðstöð fullorðinna.
- Endurskoða húsnæðismál fyrir starfsemi Miðjunnar.
- Tryggja framgang uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis.
- Skipa starfshóp um notkun Hvamms á Húsavík sem lífsgæðakjarna í samvinnu við aðra eigendur og hagsmunaaðila.
- Styðja áfram við öflugt starf félags eldri borgara með áherslu á aukna hreyfingu.
- Skoða og efla þátttökuverkefni eldri borgara.
- Unnið verði að undirbúningi fleiri búsetuúrræða fyrir fatlaða.
- Bæta aðgengi að stofnunum sveitarfélagsins.
- Tryggja nýjan samstarfssamning þingeyskra sveitarfélaga svo Norðurþing geti áfram leitt velferðarþjónustu á sviði félags- og skólaþjónustu með kröftugum hætti á grunni hinna nýju farsældarlaga.
Íþróttir og æskulýðsstarf
- Frístundastyrkur barna verði hækkaður í 30.000 kr. á kjörtímabilinu.
- Frístund og félagsmiðstöð ungmenna á Húsavík verði komin í varanlega aðstöðu fyrir lok árs 2024.
- Áfram verði unnið að uppbygging skíða- og útivistarsvæðis við Reyðarárhnjúk.
- Styðja við uppbyggingu rafíþrótta.
- Huga að uppbyggingu almenningsíþrótta með áherslu á göngu- og hjólaleiðir.
- Áframhaldandi stuðningur við íþróttafélögin og setja fram stefnu og aðgerðaráætlun um uppbyggingu á íþrótta- og tómstundaaðstöðu til framtíðar.
- Skipuð verður afmælisnefnd vegna 100 ára afmælis Völsungs 12. apríl 2027 sem mun safna saman hugmyndum, útfæra og gera tillögu að afmælisgjöf Norðurþings til félagsins.
- Vinna að endurbótum á leikvöllum í sveitarfélaginu.
- Fara í endurbætur á sundlaugaraðstöðunni í Lundi.
Samgöngur og hafnir
- Stofnuð verður þriggja manna hafnarnefnd sem fer með stjórn Hafnarsjóðs Norðurþings í ljósi aukinna umsvifa og framtíðaruppbyggingar.
- Standa vörð um Húsavíkurflugvöll.
- Fara í stefnumótun um starfsemi og aðbúnað hafnanna svo að hver atvinnustarfsemi fyrir sig hafi tækifæri til að vaxa og dafna.
- Hafnarsvæðin verði áfram lífæð atvinnulífs í sveitarfélaginu og grunnþjónustan tryggð við notendur hafnanna.
- Ráðast í lagfæringar á yfirborði gatna og geymslusvæða á hafnarsvæðum.
- Beita okkur fyrir að heilsársþjónusta á Dettifossvegi verði tryggð.
- Hefja á ný vinnu við vegaframkvæmdir á athafnasvæði Höfða á Húsavík.