Nauðsynlegt að fjárframlög verði aukin til að tryggja aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu
„Áskoranir og sóknarfæri“ var yfirskrift ársfundar Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), sem fram fór í dag. Þar kom fram að rekstur á árinu 2021 hafi verið markaður af baráttunni við Covid-19 faraldurinn sem hafði margvísleg áhrif á starfsemina. Þrátt fyrir það hafi orðið mikil aukning á ýmsum sviðum starfseminnar frá árinu áður.
Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins, segir nauðsynlegt að fjárframlög verði aukin til að tryggja aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu í samfélaginu; en SAk var rekið með 146,9 milljóna króna halla á síðasta ári.
Þá greindi Hildigunnur frá því að áhrif á starfsemina hafi verið greinileg þegar toppar komu í Covid-faraldurinn. Þá hafi orðið röskun á starfsemi dag- og göngudeilda, frestun valaðgerða á skurðstofum með óhjákvæmilegum áhrifum á lengingu biðlista og biðtíma. Hins vegar hafi almennt gengið vel að veita nauðsynlega bráðaþjónustu, þrátt fyrir gríðarlega mikið álag á starfsfólk SAk.
Mikilvægt að halda áfram að efla þjónustuna
Þá kom fram á fundinum að laun og launatengd gjöld sjúkrahússins voru 8.454,7 milljónir og hækkuðu um 751 milljón á milli ára. Alls störfuðu 960 einstaklingar við sjúkrahúsið, sjö fleiri en árið áður.
Karlar voru 170 og konur 790. Setnar stöður voru að meðaltali 561,6 og fjölgaði um 44,4 stöður á milli ára og kemur sú aukning helst vegna breytinga sem tengjast betri vinnutíma vaktavinnufólks.
Árslaun á hverja stöðu voru að meðaltali 12 m.kr. Önnur gjöld, fyrir utan laun og afskriftir, námu 2.735,6 m.kr.
Heildarútgjöld vegna reksturs hækkuðu um 14,4 prósent á milli ára og voru 11.190 milljónir króna samanborið við rúmar 9.785 milljónir árið áður. Rekstrarniðurstaða ársins var neikvæð um 146,9 milljónir króna, sem fyrr segir.
„Rekstur sjúkrahússins er mikil áskorun. Halli hefur verið á rekstrinum og snúa þarf þeirri þróun við. Á sama tíma er mikilvægt að halda áfram að efla þjónustuna við íbúa samfélagsins, í takt við þarfir þeirra. Því er nauðsynlegt að fjárframlög verði aukin til að tryggja aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu í samfélaginu,“ sagði Hildigunnur.
Heilbrigðisstofnun í fremstu röð
Hildigunnur, sem skipuð var forstjóri SAk frá og með 1. september 2021, sagði í ræðu sinni á fundinum að það mikla starf sem unnið var á SAk á liðnu ári hafi styrkt sjúkrahúsið enn frekar í sessi sem heilbrigðisstofnun í fremstu röð.
Hildigunnur kynnti ennfremur endurskoðaða stefnu sjúkrahússins til ársins 2027. Hún sagði við það tækifæri að margar áskoranir væru framundan, m.a. varðandi þjónustu, rekstur og mönnun. „Við stöndum áfram sem „SAk fyrir samfélagið“ og ætlum okkur að verða leiðandi á sviði sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og öflugur vettvangur kennslu og rannsókna á heilbrigðissviði,“ sagði hún.