Líklega nyrsta myndasöguhátíð í heimi

Fyrsta Myndasöguhátíð Siglufjarðar mun eiga sér stað í sumar frá 30. ágúst til 1. september 2024.
Fyrsta Myndasöguhátíð Siglufjarðar mun eiga sér stað í sumar frá 30. ágúst til 1. september 2024.

Myndasöguhátíð Siglufjarðar, sem líklega er nyrsta myndasöguhátíð í heimi, mun fara fram 30. ágúst til 1. september 2024. Þar munu íslenskir og erlendir listamenn og höfundar taka höndum saman með samfélaginu á Siglufirði og setja upp einstakan viðburð í kringum menningu myndasögunnar.

Myndasöguhátíðin á Siglufirði er til heiðurs myndasöguforminu þar sem fjölbreytileika miðilsins er gert hátt undir höfði. Fjölbreytt dagskrá verður í boði þar sem fólk á öllum aldri ætti að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Hátíðin er styrkt af Fjallabyggð og nýtur einnig stuðnings frá nærsamfélaginu því fjöldi bæjarbúa leggur hátíðinni lið. Siglufjörður skipar sérstakan sess í íslenskri menningarsögu því auk þess að hafa verið miðstöð Síldarævintýrsins þá er hann einnig fæðingarstaður íslenskrar myndasöguútgáfu.

,,Það var hér sem Siglufjarðar Prentsmiðjan skráði sig í sögubækurnar á fjórða áratug 20. aldar og var fyrst til að gefa út myndasögur á íslensku. Það er í þessum fagra firði sem við erum stolt af því að halda fyrstu Myndasöguhátíð Íslands," segir í tilkynningu.

Á dagskrá hátíðarinnar er meðal annars: 

  • Sýningarbásar listamanna, þar sem bæði innlendir og erlendir listamenn taka þátt.
  • Hrífandi sýning á verkum og myndskreytingum listamannsins Brian Pilkington.
  • Sýning á teiknimyndum fyrir börn í samvinnu við Hreyfimyndahátíðina í Þessalóníku.
  • Sögusýning um Siglufjarðarprentsmiðju, sem prentaði fyrstu myndasögurnar á íslensku. Sýningarstjóri er Örlygur Kristfinnsson.
  • Fræðandi fyrirlestrar fyrir fullorðna.
  • Vinnustofa í borðspilum í boði Goblin Spilamiðstöðvarinnar þar sem farið verður yfir ýmsar tegundir borðspila. Hentar ævintýragjörnum á öllum aldri.
  • Drekktu og teiknaðu – notaleg teikni-kvöldstund með lifandi tónlistarflutningi frá akureyrska jazz-bandinu Baby Bop.
  • Holy Hrafn stendur fyrir dragsýningu og raftónlistarflutningi sem mun leiða gesti út á dansgólfið.
  • Hátíðin fer fram á fjölda sýningarstaða í miðbæ Siglufjarðar og má nefna hið rómaða Síldarminjarsafn Íslands, Segull 67 Brugghús, Gallerí Söluturninn og Alþýðuhúsið. Ókeypis aðgangur er á alla viðburði hátíðarinnar.

,,Gestir geta því upplifað og kynnst sögu og menningu bæjarins á milli þess sem þeir sökkva sér í líflegan heim myndasögunnar. Á Myndasöguhátíð Siglufjarðar gefst listamönnum, áhugafólki og almenningi fágætt tækifæri til að komast í snertingu við fjölbreyttan heim myndasögunnar. Gestir hátíðarinnar munu eiga von á heilli helgi af innblæstri, fræðslu og skemmtun þar sem sköpun og arfleifð myndrænnar frásagnar mætast," segir í tilkynningunni

Nýjast