Leikfélag Hörgdæla frumsýnir íslenska söngleikinn Epli og eikur í kvöld

Myndir Leikfélag Hörgdæla
Myndir Leikfélag Hörgdæla

„Það er mikil tilhlökkun fyrir frumsýningunni, eins og alltaf þegar fólk hefur lagt mikið á sig til að setja upp sýningu,“ segir Fanney Valsdóttir formaður Leikfélags Hörgdæla sem í kvöld, fimmtudagkvöldið 27. febrúar frumsýnir leikverkið Epli og eikur eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir.  Sýnt er á Melum í Hörgársveit.

„Við hófum leit að heppilegu leikrit á liðnu hausti og horfðum til þess að það yrði íslenskt, fjörugt og skemmtilegt,“ segir Fanney en ákveðið var að leita í smiðju Hugleiks enda mátti gera ráð fyrir að þar á bæ yrðu þessi skilyrði uppfyllt. „Við lásum fjögur verk og leist mjög vel á þetta leikrit, Epli og eikur og völdum það.“

Ekki sýnt síðan 2007

Töluverð tónlist er í verkinu, en Þórunn skrifaði leikritið og samdi lög og texta. Verkið er skrifað í kringum 2006 og var sett upp hjá Hugleik árið 2007. „Við höfum ekki haft spurnir af því að leikritið hafi verið sýnt aftur annars staðar og kemur eiginlega á óvart því þetta er bráðskemmtilegt leikrit,“ segir Fanney.

Epli og eikur fjallar um óhefðbundin ástarsambönd og glæpsamleg áhugamál nokkurra einstaklinga sem fléttast saman í sprenghlægilegan og flókinn eltingarleik. „Fólk vill gjarnan fara í leikhús, eiga þar góða stund og hlægja hressilega. Epli og eikur býður einmitt upp á það. Við vonum svo sannarlega að fólk hafi gaman af og eru nokkuð viss um að þetta verk muni falla í kramið hjá áhorfendum,“ segir hún.

Ungir leikarar og reynsluboltar á sviðinu

Líkt og venja er taka fjölmargir þátt í að koma sýningu á svið, en leikarar í verkinu eru 12 talsins í 11 hlutverkum. Fanney segir að þar sé á ferð góð blanda ungra leikara sem eru að stíga sín fyrstu skref á sviði í bland við reynslubolta sem áður hafi tekið þátt í uppfærslum Leikfélags Hördæla í gegn um árin.

Frumsýning er í kvöld og verkið verður sýnt nú næstu helgar eða í mars og fram í apríl eins og aðsókn leyfir en Fanney gerir ráð fyrir að einnig verði sýningar í kring um páska.

 

Nýjast