„Lá yfir spólum hjá Krilla“

Elsa María Jakobsdóttir, kvikmyndagerðarkona.
Elsa María Jakobsdóttir, kvikmyndagerðarkona.

Elsa María Jakobsdóttir frá Húsavík hefur komið víða við. Hún starfaði í nokkur ár hjá Ríkissjónvarpinu þar sem hún vann m.a. við Kastljósið. Hún útskrifaðist nýverið frá leikstjórnardeild virts alþjóðlegs kvikmyndaskóla en útskriftarmynd hennar, stuttmyndin Atelier var valin til þáttöku á virtri alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Tékklandi sem fram fór á dögunum.

Áhuginn kviknaði snemma

Elsa María hefur lengi verið að hasla sér völl innan kvikmyndabransans. Árið 2008 gerði hún heimildastuttmyndina Teipið gengur sem frumsýnd var á Reykjavík International Filmfestival (RIFF). Árið 2013 gerði hún svo stuttmyndina Megaphone sem var valin besta íslenska stuttmyndin á Northern Wave kvikmyndahátíðinni. Svo það má segja að áhuginn á kvikmyndagerð hafi vaknað snemma hjá Elsu Maríu.

„Áhuginn vaknaði alveg örugglega fyrst við að liggja yfir spólum á Billanum hjá Krilla á Húsavík og svo síðar þegar Cult vídjó var og hét. Ótrúlegt að slík leiga og menningarstofnun hafi verið starfrækt á Húsavík en þá fór ég að skilja að bíó var ekki bara afþreying heldur að það voru til myndir sem höfðu sterka rödd og höfundareinkenni leikstjóra,“ segir hún og bendir á að David Lynch og síðar Lars von Trier hafi verið fyrstu leikstjórarnir sem hún fann sterklega fyrir og tengdi við.

„Þeir leggja einhver álög á áhorfandann. Ég varð eiginlega háð því ástandi. Á tímabili leigði ég Lost Highway svo oft hjá Krilla að eitt kvöldið þegar ég var að reyna að komast upp Jónasartúnið í þungum snjó og óveðri með spóluna í plastpoka rann ég aftur fyrir mig og braut síðasta eintakið frá Krilla. Sá myndina ekki aftur fyrr en 15 árum síðar þegar ég byrjaði í Den Danske Filmskole og þá á 35 mm filmu og fór smá að gráta. En þarna í millitíðinni, sem sagt frá því að ég braut spóluna (Krilli rukkaði mig aldrei fyrir hana) og komst inn í kvikmyndakólann, sinnti ég ýmsum störfum í sjónvarpi og kvikmyndagerð þangað til að ég var ómeðvitað búin að kjarka mig upp í þetta og varð að láta á það reyna að gera bíó sjálf.“

Frábær byrjun á lífinu eftir kvikmyndaskóla

Karlovy Vary kvikmyndahátiðin þar sem kvikmynd Elsu Maríu, Atelier var sýnd á mánudag er svokölluð A-hátíð. Það þýðir að hátíðin er mjög framarlega í goggunarröð kvikmyndahátíða í heiminum. Elsa María segir að kvikmyndahátíðir séu sér bransi út af fyrir sig þar sem slegist er um bestu verkefnin og stærstu stjörnurnar en kvikmyndhátíðin í Cannes tróni þar efst í flokki.

„Fyrir mig er það frábær byrjun á lífinu eftir kvikmyndaskóla að vera komin strax á svona spennandi hátíð aðeins mánuði eftir útskrift,“ segir hún en prógrammið sem hún var valin inn í kallast Future Frames: Ten New Directors to Follow. Það er fyrst og fremst kynningar prógramm fyrir nýja talenta og það eru evprópsku kvikmyndasjóðirnir sem standa að baki þessu. Hvert Evrópuland tilnefnir einn kandídat og að lokum eru tíu valdir inn á hátíðina.

„Ég er hér tilnefnd af Kvikmyndamiðstöð Íslands þannig að það má segja að þetta sé einhvers konar júróvisjón fyrir nýútskrifaða leikstjóra. Gamall draumur að rætast!“ Segir hún og bætir við: „Hér er myndin mín svo sýnd hátíðargestum og bransafólki og séð til þess að fjallað er um mig og myndina mína í helstu alþjóðlegu kvikmyndamiðlunum sem hjálpar mér svo að fá gott fólk til skrafs og ráðagerða varðandi mín framtíðar verkefni.“

Viðtalið í heild sinni má nálgast í prentútgáfu Skarps.

- Skarpur, 6. júní 2017

Nýjast