„Höfum áhyggjur af því að ferðamannastaðir hér á svæðinu dragist aftur úr“

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands

Eins og greint var frá í Vikublaðinu fyrir skemmstu úthlutaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála, menningar- og viðskiptaráðherra úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árið 2022.  54 verkefni hlutu styrki og voru þar einungis tvö verkefni af Norðurlandi eystra.

Alls var úthlutað 584 milljónum króna en hæsti einstaki styrkurinn er 55 milljónir kr. Framkvæmdasjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila.

Enn virðist stór hluti fjármagns rata á Suðurlandið þrátt fyrir háværar raddir um betri dreifingu ferðamanna um landið.  Ætla má að með auknu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll að fjöldi ferðamanna aukist á svæðinu. Það sé því brýnt að innviðir ferðaþjónustunnar geti tekið við þeim. 

Hallar á ferðaþjónustuna á svæðinu

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir í svari til Vikublaðsins að verulega halli á ferðaþjónustuna á Norðurlandi eystra í þessari úthlutun.

„Eins og áður fer stærsti hluti styrkjanna á fjölsóttustu staðina sem er þvert á það sem þarf ef á að byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu,“ segir Arnheiður og bætir við að fundað verði um þetta í stjórn MN og brugðist verði formlega við í kjölfarið.  

„Við gerðum mjög harkalegar athugasemdir við þáverandi ferðamálaráðherra í fyrra vegna Vörðuverkefna og hefði maður vonað að það yrði ekki áframhald á því að horfa framhjá þeirri uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað hér á Norðurlandi,“ segir Arnheiður enn fremur.

Hún segir hlutfall styrkjanna sem rata á Norðurland eystra ekki vera í neinu samræmi við umfang ferðaþjónustunnar á svæðinu og þörf fyrir uppbyggingu.

 Áhyggjur af afturför

„Það sem er jákvætt er að núna kom töluvert meira í hlut Norðurlands vestra en áður en sá landshluti hefur verið útundan síðustu ár. Mikil vinna hefur átt sér stað í sveitarfélögunum varðandi forgangsröðun verkefna í áfangastaðaáætlun og ættu verkefni að fá úthlutanir í samræmi við það ef umsóknir eru að skila sér. Fjármagn er að skila sér í gegnum Framkvæmdasjóðinn og Landsáætlun auk þess sem verkefninu Vörður fyrirmyndaráfangastaðir var bætt inn á síðasta ári og þá eingöngu úthlutað á einu landsvæði. Við höfum gert formlegar athugasemdir við þetta og höfum áhyggjur af því að ferðamannastaðir hér á svæðinu dragist aftur úr í uppbyggingu ef ekki skilar sér aukið fjármagn og ef vinsælustu ferðamannastaðirnir njóta sérstaks forgangs í uppbyggingu þar sem samkeppnishæfni þeirra batnar þá og þar með eykst ásókn í þá á meðan við erum að berjast við að byggja upp hér á svæðinu,“ segir Arnheiður að lokum.

Nýjast