Eldur getur skapað hættu fyrir gesti
mth@vikubladid.is
-
Vilja stofna vinnuhópa um um brunavarnir á útivistarsvæðum
-
Hafa áhyggjur af mikilli umferð um Kjarnaveg
„Í Kjarnaskógi og í Nausta- og Hamraborgun getur verið hætta á gróðureldum sem skapað getur hættu fyrir gesti svæðanna og einnig gesta á tjaldsvæðinu að Hömrum,“ segir í erindi sem forsvarsmenn Hamra, útilífsmiðstöð skáta á Akureyri hefur sent bæjaryfirvöldum.
Farið er fram á að stofnaður verði vinnuhópur um brunavarnir og flóttaleiðir gesta af útilífsvæðunum í Kjarnaskógi, að Hömrum sem og í Nausta- og Harmrborgun. Lagt er til að hópinn skipi fulltrúar frá Akureyrarbæ, Skógræktarfélagi Eyfirðinga og Útilífsmiðstöð skáta að Hömrum. Hópnum er ætlað að meta hættu vegna elds á svæðunum og gera áætlun og tillögur um aðgerðir sem miða ða auknu öryggi gesta svæðanna.
Fram kemur í greinargerð með tillögunnni að hætta geti einnig skapast vegna elds í ferðavögnum á tjaldsvæðunum sem bæði snýr að gestum á svæðinu og eins gæti eldur mögulega borist í skógræktarsvæðin.
Vara við slysahættu
„Þarna getur skapast veruleg slysahætta,“ segir í erindi frá aðalfundi Hamra, útilífsmiðstöð skáta á Akureyri en fundurinn beindi því til bæjaryfirvalda að gerður verði göngu- og hjólastígur meðfram Kjarnavegi að Hömrum og Kjarnaskógi.
Fram kemur í erindinu að gríðarlega umferð sé um Kjarnaveg allt árið um kring. Yfir sumarmánuðina noti gestir tjaldsvæðisins veginn mikið og gjarnan séu með í för stórir ferðavagnar. Auk þess er mikil umferð um veginn vegna þeirra sem heimsækja Kjarnaskóg og eða Hamra til að njóta þessara útivistarsvæða. „Mjög mikil og vaxandi umferð gangandi og hjólandi vegfarenda, þar á meðal skólabarna í stórum hópum er einnig um þennan mjóa veg sem nauðsynlega þarfnast lýsingar.“
Bæjarráð vísaði erindinu til umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar.