Æfir japanska bardagaíþrótt og leiðsegir ítölskum ferðamönnum á sumrin

Ásta er útivistarkona og náttúruunnandi og stundar stíft hestamennsku, skíði og göngur í frítíma sín…
Ásta er útivistarkona og náttúruunnandi og stundar stíft hestamennsku, skíði og göngur í frítíma sínum.

Ásta Margrét Ásmundsdóttir er efnafræðingur og aðjúnkt við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Ásta kennir efnafræði við deildina og stundar jafnframt rannsóknir á sviði umhverfismála. Undanfarin ár hefur hún rannsakað örplast í íslenskri náttúru, en örplast eru plastagnir sem eru < 5 mm í þvermál. Örplast verður m.a. til við niðurbrot á plastúrgangi sem dagar uppi í náttúrunni.

Örplast hefur verið að safnast upp bæði í sjónum og á landi í marga áratugi og finnst nú á afskekktum stöðum jarðarinnar eins og t.d. við pólana. Ásta og samstarfsfólk hennar hefur t.d. mælt töluvert örplast á jöklum, í seti stöðuvatna og víðar hér á landi. Ásta hefur auk þess haft umsjón með umhverfisvöktun í Eyjafirði í samstarfi við Norðurorku, þar sem fylgst er með ástandi sjávar og hvort og hvernig skolp í útrás bæjarins hefur áhrif á ástand sjávar og lífríkis þess.

Rannsakar krækling sem vex nálægt skolp útrásum

Undanfarið misseri hefur Ásta verið í rannsóknarleyfi og dvalið hjá NORCE (Norwegian Research Centre) í Stavanger í Noregi. Þar hefur hún stundað rannsóknir á kræklingi sem er ræktaður við skolp útrásir á Reykjavíkursvæðinu. Markmiðið með þeim rannsóknum er að kanna hvort örplast, lyfjaleifar og fleiri mengunarefni safnist upp í kræklingi sem vex nálægt skolp útrásum og hvaða áhrif mengunin gæti haft á vöxt og viðgang hans.

Doktorsnám samhliða starfinu í HA

Ásta er Akureyringur og eftir útskrift úr Menntaskólanum á Akureyri lærði hún efnafræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með B.Sc gráðu. Síðan lá leiðin til Ítalíu þar sem hún fór í mastersnám í efnagreiningum við Háskólanum í Bologna. Árin á Ítalíu urðu sex, en eftir heimkomu hefur Ásta m.a. starfað sem efnafræðingur hjá Skinnaiðnaðinum, Matís og Becromal auk þess sem hún útskrifaðist úr MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík og úr kennslufræði frá Háskólanum á Akureyri. Ásta hefur starfað við Háskólann á Akureyri frá árinu 2013 og stundar nú samhliða starfinu doktorsnám við Háskóla Íslands.

Ásta er útivistarkona og náttúruunnandi og stundar stíft hestamennsku, skíði og göngur í frítíma sínum. Það sem færri vita er að hún æfir líka japanska bardagaíþrótt. Hún er lærður leiðsögumaður og nýtur þess að leiðsegja ítölskum ferðamönnum um Ísland yfir sumartímann.

 

Nýjast