Á vaktinni um jólin

Hulda Magnadóttir, ljósmóðir. Mynd: HÞ
Hulda Magnadóttir, ljósmóðir. Mynd: HÞ

Að vera heima í faðmi fjölskyldunnar um jólin er notaleg tilhugsun sem flest okkar tökum sem sjálfsögðum hlut. Ekki eru allir sem fá að njóta þess að halda jólin heima en sumum vinnustöðum er aldrei lokað. Við fórum á stúfana og spjölluðum við fólk sem stendur vaktina yfir hátíðirnar. Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem var í umsjón nemenda í Háskólanum á Akureyri.

Hulda Magnadóttir, ljósmóðir

Hefur þú oft verið á vakt á aðfangadagskvöld?

Já, nokkrum sinnum en ég man ekki hversu oft. Við skiptum jólavöktunum bróðurlega á milli okkar og oftast er maður á kvöldvakt á aðfangadagskvöld fjórða hvert ár.

Hvernig er að fá ekki frí í vinnunni yfir hátíðirnar?

Það er svo sem allt í lagi. Það erfiðasta er að koma sér út úr húsi og skilja við fjölskylduna en um leið og maður er kominn í vinnuna batnar það. Hér er alltaf svo jólalegt.

Af öllum dögum hátíðanna, hvaða dag langar þig helst að vera heima með fjölskyldunni?

Mig langar helst að vera heima á aðfangadagskvöld og opna pakkana með fjölskyldunni. Systir mín og hennar fjölskylda eru oft hjá okkur á aðfangadag líka svo að það er margt um manninn. Það er hins vegar mjög misjafnt hvaða daga fólk vill vera í fríi. Sumum finnst mjög mikilvægt að vera heima á Þorláksmessukvöld og öðrum á jóladag.

Er reynt að skapa jólalega stemmingu í vinnunni?

Já, hér er alltaf mjög jólalegt. Mikið og fallega skreytt og við förum sjálfar í jólalega búninga og erum stundum með jólasveinahúfur. Jólamatur er á boðstólnum og við komum með smákökur, konfekt og alls konar að heiman svo að það má segja að engan skorti neitt.

Manstu eftir einhverju eftirminnilegu sem gerðist í vinnunni á aðfangadagskvöld?

Nei, í fljótu bragði man ég því miður enga sérstaka sögu. Hér ríkir hins vegar alltaf einhver ólýsanleg aukagleði þegar jólabarn kemur í heiminn. Foreldrar og við ljósmæður svífum um á bleiku skýi sem er mjög gaman.

Helga Þóra Helgadóttir –

Nýjast